Hryðjuverkamenn eða almennir borgarar

Úthverfi Al-Bab.
Úthverfi Al-Bab. AFP

Að minnsta kosti 24 almennir borgarar, þar á meðal 11 börn, létust í loftárásum Tyrkja á sýrlenskan bæ sem er undir yfirráðum vígasamtakanna Ríkis íslams. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum Syrian Observatory for Human Rights sem fylgjast með mannfalli í Sýrlandi.

Tyrkneski herinn segir aftur á móti að aðeins hryðjuverkamenn hafi látist í árásinni, alls 15 manns.

Bærinn Al-Bab er síðasta vígi Ríkis íslams í Aleppo-héraði í Norður-Sýrlandi. Undanfarna mánuði hafa sýrlenskir uppreisnarhópar ásamt Tyrkjum gert harða hríð að bænum og komust hersveitir þeirra inn í bæinn um helgina.

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, sagði á þriðjudag að stór hluti bæjarins væri kominn í þeirra hendur. Aftur á móti heldur Observatory því fram að Tyrkir hafi náð litlum árangri frá því þeir komu inn í bæinn úr vestri.

Staff­an de Mistura, sem fer með málefni Sýrlands hjá Sam­einuðu þjóðunum, hvetur til þess að meira verði gert til þess að koma á friði í Sýrlandi en hann var í heimsókn í Moskvu þar sem hann ræðir við rússnesk stjórnvöld um komandi friðarviðræður í Genf. 

De Mistura átti fundi með Sergei Lavrov utanríkisráðherra og Sergei Shoigu varnarmálaráðherra. Viðræðurnar hefjast í Sviss 23. febrúar.

Hann segir tímabært að reyna að koma á eðlilegu stjórnmálaástandi í Sýrlandi. Samkvæmt frétt TASS-fréttastofunnar styðja SÞ viðræðurnar sem Rússar stýra í Astana. Þar sitja á rökstólum fulltrúar vopnaðra hreyfinga stjórnarandstæðinga og fulltrúar stjórnvalda í Sýrlandi. Auk Rússa standa Tyrkir og Íranar að fundinum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert