Sækja ættingja sína í heimalandinu

Þessi mynd er skjáskot úr myndbandi þar sem sjá mátti …
Þessi mynd er skjáskot úr myndbandi þar sem sjá mátti lögreglumenn í Búrma henda Rohingjum út úr húsum sínum í janúar. AFP

Hundruð manna af Rohingja-þjóðinni hafa flúið ofsóknir í Bangladess aftur til Búrma, þaðan sem þau komu. Flestir hafa þó aðeins snúið aftur tímabundið til að sækja ættingja sína. Þetta segir einn leiðtogi fólksins.

Tugir þúsunda Rohingja hafa flúið frá vesturhluta Búrma frá því í október undan ofbeldi hermanna og lögreglu. 

Dudu Mia, leiðtogi fólksins í strandbænum Teknaf, segir að um þúsund þeirra, aðallega ungir karlmenn, hafi nú snúið aftur til þorpa sinna í Búrma til að sækja aldraða ættingja sína.

„Flestir eru að vona að þeir geti tekið ættingja sína með sér til Bangladess. Það eru meira en fjórir mánuðir frá því að þeir fóru og þeir hafa ekki talað við foreldra sína á þeim tíma,“ segir Mia í samtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar.

Herinn í Búrma hefur hætt aðgerðum sínum í Rakhine-héraði og þar með bundið enda á fjögurra mánaða herferð sína á svæðinu. Aðgerðirnar hafa beinst gegn Rohingjum, íslömskum minnihlutahópi. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að hernaðurinn gæti talist til glæpa gegn mannkyni.

Ætla að flytja flóttafólkið út á eyju

Talið er að hundruð Rohingja hafi fallið og um 70 þúsund þeirra hafa flúið til Bangladess. Yfirvöld í Bangladess telja að um 400 þúsund Rohingjar hafist nú við í landinu.

Flóttafólkið hefur lýst grófum brotum hermanna í heimalandinu, m.a. nauðgunum, pyntingum og morðum. Þá hafi hús þeirra ítrekað verið brennd til kaldra kola.

Annar leiðtogi þjóðarinnar segir að hluti flóttamannanna, sem hefur snúið aftur til Búrma, ætli sér ekki að snúa aftur til Bangladess. Hann segir að fólkið hafi yfirgefið Búrma í örvæntingu en vilji ekki búa í Bangladess við enn meiri ofsóknir og ömurlegar aðstæður.

Á gervitunglamynd sem mannréttindasamtökin Human Rights Watch birtu í fyrra mátti sjá hvernig hermenn í Búrma höfðu brennt niður þorp Rohingja í landinu og þröngvað þeim til að leggja á flótta. 

Hópur Rohingja hefur flúið til Malasíu. Þessi mynd sýnir börn …
Hópur Rohingja hefur flúið til Malasíu. Þessi mynd sýnir börn úr hópi flóttamanna á skólabekk þar í landi. AFP

Flestir sem flúðu til Bangladess búa þar við mjög erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum, rétt handan landamæranna að Búrma. 

Yfirvöld í Bangladess hafa þegar samþykkt umdeilda áætlun um að flytja flóttafólkið út á eyju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert