Bannar dreifingu matvæla til flóttafólks

Franskir lögreglumenn skoða skilríki flóttamanna í Calais.
Franskir lögreglumenn skoða skilríki flóttamanna í Calais. AFP

Borgarstjóri Calais í Frakklandi hefur bannað dreifingu matvæla til flóttafólks í viðleitni til að koma í veg fyrir að flóttamannabúðir rísi þar á ný í stað „frumskógarins“ sem var rýmdur og rifinn niður í árslok 2016.

Hundruðir hafa snúið aftur til Calais í kjölfar þess að upphaflegu búðirnar voru rýmdar en Natacha Bouchart segir að dreifing matvæla til þeirra feli í sér ógn við öryggi á staðnum.

Yfirvöld hafa þegar komið í veg fyrir fyrirætlanir góðgerðasamtaka sem hugðust setja upp sturtur fyrir unga flóttamenn.

Sjálfboðaliðar sem starfa við úthlutun matvæla segjast hafa neyðst til að gera það í laumi vegna aukinnar löggæslu. Hjálparsamtök hyggjast hunsa bann borgarstjórans og hafa að auki leitað lögfræðiráðgjafar.

Í tilskipun Bouchart segir m.a. að skipulögð dreifing matvæla til flóttamanna á svæðinu þar sem búðirnar gömlu stóðu ógni frið og öryggi. Þá er lagt blátt bann við endutekinni, langvarandi samansöfnun fólks á svæðinu.

Að sögn Söruh Arrom, sem hefur dreift matvælum fyrir samtökin Utopia56, beitti lögregla táragasi til að koma í veg fyrir að sjálfboðaliðar gæfu um 30 táningum morgunmat á akri fyrir utan Calais í gær.

„Aðstæður flóttamanna eru að verða erfiðari. Þeir sofa ekki, geta ekki baðað sig; þeir verða sífellt þreyttari. Við höfum verulegar áhyggjur af framtíð þeirra,“ segir Arrom.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Flóttamenn ganga meðfram þjóðveginum A25 í átt að Calais.
Flóttamenn ganga meðfram þjóðveginum A25 í átt að Calais. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert