„Lemur þú konuna þína?“

John Bennett.
John Bennett. Ljósmynd/Oklahoma State Legislature

Þrír múslimskir nemar sem freistuðu þess að ræða við bandarískan þingmann um íslam voru beðnir um að fylla út spurningalista áður, þar sem m.a. var spurt að því hvort þeir beittu eiginkonur sínar ofbeldi og hvort þeir fordæmdu Hamas.

Að sögn Adam Soltani, forsvarsmanns Council on American-Islamic Relations (CAIR) í Oklahoma, yfirgáfu nemarnir skrifstofu John Bennett án þess að svara spurningunum.

„Enginn á að sæta heimskulegum, íslamfóbískum, hatursþrungnum, þröngsýnum spurningum áður en þeir fá að hitta kjörinn fulltrúa sinn,“ sagði Soltani á Facebook. „Gerum hann ábyrgan.“

Að sögn Bennett hafði hann yfirgefið skrifstofu sína þegar nemana bar að garði en hann bað aðstoðarmann sinn um að láta þá fylla út spurningalistann, bóka tíma og koma með trúarlega texta til að ræða um.

Þingmaðurinn segir spurningalistann byggja á íslömskum trúarritum og skrifum íslamskra fræðamanna.

Ein spurninganna hljómaði þannig: „Mohammed myrti heiðingja, kristna og gyðinga sem voru honum ósammála. Ert þú sammála þessu?“

Bennett segir spurningunum hafa verið ætlað að vekja nemana til umhugsunar, m.a. um gildi íslam. „Ef þeir eru ekki meðvitaðir um hvað íslam, sjaría, CAIR, jíhadistar standa fyrir og styðja það samt þá eru þeir partur af vandamálinu,“ segir þingmaðurinn.

Að sögn Soltani er spurningalistinn kominn frá Act for America, sem Southern Poverty Law Center segir stærstu grasrótarsamtök gegn íslam í Bandaríkjunum. Demókrataflokkurinn í Oklahoma hefur fordæmt spurningalistann og hvatt Repúblikanaflokkinn til að gera slíkt hið sama varðandi Bennett.

Bennett gengdi herþjónustu og er kristinn. Hann er þekktur fyrir að gagnrýnin ummæli um íslam. Árið 2014 sagði hann m.a. á Facebook að íbúar Oklahoma ættu að vara sig á múslimskum Bandaríkjamönnum og sama ár sagði hann að íslam væri krabbamein sem bandarískja þjóðin þyrfti að losa sig við.

Þá hefur hann kallað CAIR hryðjuverkasamtök.

CNN sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert