Tusk endurkjörinn

Donald Tusk var endurkjörinn í dag, þrátt fyrir andstöðu Póllands.
Donald Tusk var endurkjörinn í dag, þrátt fyrir andstöðu Póllands. AFP

Donald Tusk hefur verið endurkjörinn forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þrátt fyrir mótmæli stjórnvalda í heimalandi hans, Póllandi. Tuttugu og sjö ríki sambandsins greiddu Tusk atkvæði sitt en Pólland var eina landið sem greiddi atkvæði gegn honum.

Hægrisinnuð ríkisstjórn Póllands, sem hefur löngum haft horn í síðu miðjumannsins Tusk, hafði haft í hótunum ef önnur aðildarríki ESB þvinguðu í gegn annað kjörtímabil til handa Tusk.

Þegar niðurstaðan lá fyrir sagðist Tusk myndu gera sitt besta til að gera Evrópusambandið betra í kjölfar úrsagnar Bretlands.

Leiðtogar Belgíu og Lúxemborgar óskuðu Tusk til hamingju þegar fregnirnar bárust en Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, sagði áður að endurkjör Tusk myndi hamla nauðsynlegu uppbyggingarstarfi í kjölfar Brexit.

Szydlo sagði það grundvallaratriði að forseti leiðtogaráðsins nyti stuðnings heimalands síns.

„Pólland mun verja þessi stofnunarprinsipp Evrópusambandins til hinsta dags. Lönd sem skilja það ekki eru ekki að stuðla að evrópsku samfélagi, þau eru að grafa undan því,“ sagði ráðherrann.

Bæði Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti sögðust styðja Tusk og að endurkjör hans væri til marks um stöðugleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert