Átta aftökur á tíu dögum

Dauðaklefi í borginni Huntsville í Texas.
Dauðaklefi í borginni Huntsville í Texas. AFP

Bandaríska ríkið Arkansas ætlar að flýta aftökum átta fanga sem eru á dauðadeild og framkvæma þær á tíu dögum í næsta mánuði. Ástæðan er sú að „síðasti söludagur“ illfáanlegs lyfs sem notað er við aftökur í ríkinu er að renna út.

Andstæðingar dauðarefsinga hafa mótmælt flýtingu aftakanna harðlega. Blaðið New York Times sagði hana „eins hversdagslega og hún er út í hött“.

Mennirnir átta sem bíða refsingarinnar hafa verið að meðaltali á dauðadeildinni í tvo áratugi.

Ríkisstjóri Arkansas, Asa Hutchinson, hefur undirritað tilskipun þess efnis að fyrstu tveir fangarnir verði teknir af lífi 17. apríl. Næstu tveir verða aflífaðir 20. apríl, tveir til viðbótar 24. þess mánaðar og síðustu tveir 27. apríl.

Samkvæmt Upplýsingastofnun dauðarefsinga, sem er sjálfstæð stofnun, hefur ekkert ríki framkvæmt átta aftökur á tíu dögum.

Síðan Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði dauðarefsingar á nýjan leik árið 1976 hefur aðeins Texas tekið átta manns af lífi í sama mánuðinum. Það var árið 1977.

„Ríki hafa aðeins tíu sinnum á síðustu 40 árum tekið tvo eða þrjá fanga af lífi á sama deginum. Ekkert ríki hefur framkvæmt fleiri en tvær dauðarefsingar í sömu vikunni,“ sagði Upplýsingastofnun dauðarefsinga.

Arkansas hefur ekki tekið neinn af lífi síðan árið 2005. Aftökurnar í apríl munu fækka fjölda fanga á dauðadeild um fjórðung.

Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði í síðasta mánuði að setja sig á móti þeim aðferðum sem Arkansas beitir við dauðarefsingar sínar.

Aðferðin er þannig að þrjú lyf eru notuð, fyrst midazolam sem er umdeilt deyfilyf sem gagnrýnendur segja að sé ekki nógu öflugt til að tryggja að fanginn missi meðvitund meðan á aftökunni stendur. Því aukist hættan á að hann finni fyrir sársauka.

Þrátt fyrir að midazolam sé löglegt er lager Arkansas af lyfinu að nálgast „síðasta söludag“. Mjög erfitt hefur reynst að kaupa lyfið vegna þess að stóru lyfjafyrirtækin í Bandaríkjunum hafa neitað því að afhenda það bandarískum fangelsum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert