46 ríkissaksóknarar taki pokann sinn

Jeff Sessions vill alla ríkissaksóknara, sem skipaðir voru í forsetatíð …
Jeff Sessions vill alla ríkissaksóknara, sem skipaðir voru í forsetatíð Obama, burt. AFP

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, krafðist í gær afsagnar þeirra 46 ríkissaksóknara sem ráðnir voru til starfa í forsetatíð Barack Obama. Í hópi þeirra er Preet Bharara, ríkissaksóknari Manhattan, sem forsetinn Donald Trump hafði sjálfur beðið um að sitja áfram þegar hann var kjörinn forseti.

Embætti ríkissaksóknara er pólitísk ráðning og vanalegt er að skipt sé um í þeim embættum, líkt og öðrum pólitískum valdastöðum. Ákvörðun Sessions í gær kom engu að síður á óvart, enda ekki vanalegt að skipt sé út öllum sem ráðnir voru í valdatíð síðasta forseta. Alls eru ríkissaksóknarar í Bandaríkjunum 93 talsins og eru þeir skipaðir til fjögurra ára í senn.

Talsmaður ráðuneytisins tilkynnti þó síðar í gærdag að Trump forseti hefði haft samband við tvo úr hópi hinna 46 og óskað eftir að þeir sætu áfram. Eru það annars vegar Dana Boente, sem er varasaksóknari Bandaríkjanna, og Rod Rosenstein, ríkissaksóknari Maryland.

Reuters-fréttastofan segir ekki ljóst hvort fleiri afsögnum verður hafnað. 

Chuck Schumer, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, segir í yfirlýsingu að afsagnarkrafan valdi honum áhyggjum.

Í yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins í gær segir að þar til nýir ríkissaksóknarar hafi verið skipaðir „muni hæfir saksóknarar hjá saksóknaraembættunum halda áfram sinni góðu vinnu við að rannsaka, sækja mál og halda uppi vörnum gegn verstu glæpamönnum.“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert