Hundruð barna hafa örkumlast

Vannærður drengur í Jemen á sjúkrahúsi í höfuðborginni Sanaa.
Vannærður drengur í Jemen á sjúkrahúsi í höfuðborginni Sanaa. AFP

Um 7.700 manns hafa fallið í borgarastríðinu í Jemen frá því að bandamenn, með Sádi-Araba í broddi fylkingar, hófu afskipti af því fyrir tveimur árum. Meðal fallinna eru 1.564 börn. 

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir að 2.450 börn hafi örkumlast í stríðinu. Staðfest er að 1.022 drengir hafi dáið og 478 stúlkur. Á þessum tveimur árum hefur 1.801 drengur særst og 649 stúlkur. Þá voru 1.572 drengir gerðir að barnahermönnum.

Í mars árið 2015 hófu bandamenn loftárásir í landinu til stuðnings forsetanum Abedrabbo Mansour Hadi. Aðdragandinn var sá að uppreisnarmenn Húta, sem vildu koma Hadi frá völdum, höfðu gripið til vopna í baráttu sinni. Hútar njóta hins vegar stuðnings Írana.

Uppreisnarmenn Húta brutust til valda í höfuðborginni Sanaa í september árið 2014 og flæmdu Hadi í útlegð til borgarinnar Aden í suðurhluta landsins og síðar til Sádi-Arabíu.

Bandamenn og stjórnarherinn hafa nú flæmt uppreisnarmennina frá fimm héruðum í suðurhluta landsins sem þeir höfðu áður tekið á sitt vald. Þeirra á meðal er borgin Aden.

Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, segir að 7.700 manns hafi látist í átökunum síðustu tvö ár. Þá hafi 42.550 særst.

Neyðarsöfnun Rauða krossins

Rauði kross­inn á Íslandi tók í gær ákvörðun um að senda um 16,5 millj­ón­ir króna til Jemen í neyðaraðstoð vegna al­var­legs fæðuskorts. Jemen er það ríki sem býr við hvað verst mannúðarástand í heim­in­um öll­um.

Sam­hliða hófst í gær neyðarsöfn­un fyr­ir Suður-Súd­an og Sómal­íu vegna al­var­legs fæðuskorts og yf­ir­vof­andi hung­urs­neyðar, en þegar hef­ur verið lýst yfir hung­urs­neyð á af­mörkuðu svæði í Suður-Súd­an.

Hægt er að styrkja neyðarsöfn­un­ina með því að senda SMS í núm­erið 1900 með orðinu TAKK og fara þá 1900 krón­ur af sím­reikn­ingi. Auk þess er hægt að borga með AUR-app­inu í núm­er 123 788 1717. Einnig er hægt að leggja inn á reikn­ing 0342-26-12, kt. 530269-2649. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert