Lífshættulegar aðstæður skapast

Central Parp
Central Parp AFP

Stella leikur Bandaríkjamenn væntanlega grátt í dag og á morgun því neyðarástandi hefur verið lýst yfir í tveimur ríkjum á austurströndinni auk þess sem óveðrið mun bíta víðar og er óttast að lífshættulegar aðstæður skapist. Yfir 31 milljón manna búa á þeim svæðum sem veðrið verður sem verst. Þúsundum flugferða hefur verið aflýst og skólum lokað. Almenningssamgöngur falla niður og á sumum stöðum hefur verið lýst yfir ferðabanni.

AFP

Stella er öflugasti stormurinn það sem af er vetri á austurströnd Bandaríkjanna en samkvæmt spá veðurstofunnar má gera ráð fyrir að yfir 60 sm fannfergi í New York. Fannferginu fylgir hávaðarok sem nálgast ofsaveður en skilgreiningin á ofsaveðri (11 vindstig) er eftirfarandi: „Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti,“ segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Spáin er mjög slæm á austurströnd Bandaríkjanna næsta sólarhringinn.
Spáin er mjög slæm á austurströnd Bandaríkjanna næsta sólarhringinn. AFP

Óveðursviðvörun veðurstofunnar gildir í sólarhring, frá miðnætti (klukkan 4 í nótt að íslenskum tíma) og nær yfir svæðið allt frá Connecticut norðri og New Jersey í suðri. Það þýðir að viðvörunin nær einnig til New York. Bæði Icelandair og WOW air hafa aflýst flugferðum sínum til og frá Boston og New York í dag vegna þessa. 

Stormurinn Stella mun hins vegar hafa áhrif á daglegt líf íbúa allt frá Maine niður til Virginia og eins í vesturátt -  Ohio.

Yfir 6.800 flugferðum hefur þegar verið aflýst á flugvöllunum í New York, Boston, Baltimore, Washington og Fíladelfíu. 

Í Connecticut hefur ríkisstjórinn sett á ferðabann í ríkinu og fólk beðið um að halda sig innandyra.

AFP

Vegna slæmrar veðurspár var fyrsta fundi þeirra Donald Trump Bandaríkjaforseta og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, frestað en til stóð að þau myndu hittast á fundi í Washington á föstudag. 

Í New York hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst því yfir að höfuðstöðvum þeirra verði lokað en von var á þúsundum gesta þangað á kvennaráðstefnu. Má þar meðal annars nefna fulltrúa Íslands. 

AFP

Á fjármálamörkuðum er búist við ládeyðu í dag og að flestir verðbréfamiðlarar reyni að vinna heima. En þar setur einnig fyrirhuguð ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Bandaríkjanna einnig strik í reikninginn en tilkynnt verður um hana á morgun. Því halda margir að sér höndum og því von á litlum viðskiptum með verðbréf í dag.

Yfirmenn almenningsgarða í Washington vara við því að vegna óveðurs megi búast við því að allt að 90% kirkjuberjablóma borgarinnar muni fjúka út í veður og vind. 

Samfélagsmiðlar fara ekki varhluta af veðrinu og eitt vinsælasta efnið þar er brot úr kvikmyndinni A Streetcar Named Desire frá árinu 1951 þar sem leikarinn Marlon Brando segir „Stella!“ á mjög dramatískan hátt.

Engin kennsla verður í  New York, New Jersey og hluta Connecticut, Massachusetts og Rhode Island í dag. Hið sama á við höfuðborgina og norðurhluta Virginíu.

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, lýsti yfir neyðarástandi í borginni frá miðnætti en alls búa 8,4 milljónir í borginni.

AFP

Donald Trump fylgist grannt með og hefur rætt við fulltrúa heimavarnarráðuneytisins og Almannavarnadeildar ríkisins um að vera viðbúin. „Öll ríkisstjórnin er undirbúin og reiðubúin,“ segir Trump. „Við skulum bara vona að þetta verði ekki eins slæmt eins og sumir vilja meina. Yfirleitt er það ekki þannig.“ 

En de Blasio ætlar ekki að taka neina áhættu enda spáð miklu fannfergi í borginni. Auk snjókomunnar er spáð miklu roki sem þýðir að bylurinn getur orðið einn sá versti í manna minnum. 

AFP

Ekki þarf að leita langt eftir sambærilegu óveðri og spáð er því í óveðri sem reið yfir norðausturhluta Bandaríkjanna í fyrra en þá létust 18 manns. Þá mældist 61 sm jafnfallinn snjór í Central Park og er það mesta snjódýpt sem mælst hefur þar.

BBC

New York Times

Washington Post

CNN

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert