„Augnablik rósemi í helvíti á jörðu“

Mohammad Mohiedine Anis, 70 ára, reykir pípuna sína og hlustar …
Mohammad Mohiedine Anis, 70 ára, reykir pípuna sína og hlustar á tónlist úr gömlum plötuspilara. AFP/Joseph Eid

Einstök ljósmynd hefur beint sjónum umheimsins að afleiðingum stríðs. Hún er af sjötugum karlmanni, sitjandi á sokkaleistunum í sandölum, að reykja pípu við hlið gamals plötuspilara. Það sem er þó átakanlegt er umhverfið. Hann situr í rústum svefnherbergis húss síns í Aleppo. 

Hingað til hafa börn Sýrlands verið holdgervingar fórnarlamba stríðsins. Sjö ára stúlka sem sagði frá lífsreynslu sinni á Twitter og ungur drengur sem las bréf til Baracks Obama, Bandaríkjaforseta svo dæmi séu tekin.

Nú þegar sex ár eru frá því að stríði í Sýrlandi braust út, þar sem 320 þúsund hafa fallið, þar af hundruð barna, er það mynd af gömlum manni sem hreyfir við fólki. 

„Augnablik rósemi í helvíti á jörðu,“ skrifar einhver á Instagram við myndina sem tekin er af ljósmyndara AFP-fréttastofunnar. 

Mohammad Mohiedine Anis opnar skottið á Hudson Commodor, árgerð 1949. …
Mohammad Mohiedine Anis opnar skottið á Hudson Commodor, árgerð 1949. Hann tilheyrir miklu bílasafni hans í Aleppo. AFP

Þúsundir hafa nú deilt myndinni frá því að hún var fyrst birt fyrir nokkrum dögum. Og margir vildu vita meira um þennan mann. Hver er hann? Af hverju er hann enn í Aleppo?

Því þó að mynd sé oft sögð segja meira en þúsund orð þyrstir fólk í að kynnast þessum aldraða íbúa Aleppo sem situr við gamla plötuspilarann sinn.

Fjölmiðlar hafa svarað kallinu og nafngreint manninn. Hann heitir Mohammed Mohiedin Anis og er kallaður Abu Omar. Hann varð á vegi ljósmyndarans Joseph Eid í síðustu viku sem fór um Aleppo í leit að lífi í hinni eyðilegu borg.

„Hann var auðugur maður,“ segir Eid í samtali við Wasthington Post en Anis safnaði gömlum bílum og er mjög annt um þá. „Hann talar fimm tungumál. Hann lærði læknisfræði, fór til Ítalíu og átti fyrirtæki sem seldi varaliti.“

Mohammad Mohiedine Anis við einn bíla sinna, Mercury Montclair, árgerð …
Mohammad Mohiedine Anis við einn bíla sinna, Mercury Montclair, árgerð 1957. AFP

Eid hefur farið til margra stríðshrjáðra svæða til að taka ljósmyndir. Hann hefur myndað stríðið í Sýrlandi frá upphafi þess.

Eid hitti Anis fyrst fyrir um ári. Þá var hann enn í Aleppo en eiginkonur hans tvær og átta börn höfðu yfirgefið borgina. 

Í síðustu viku hélt Eid aftur til Aleppo til að kanna hvað orðið hefði um Anis og bílasafnið hans. Nágrannar bentu honum á tæplega hundrað ára gamalt hús. Eid segir að í rústum hverfisins hafi mátt sjá bíla Anis. Þeir eru nú flestir ónýtir. Hús hans er einnig hrunið að mestu. En þar er Anis þó ennþá. Hann hellti upp á te fyrir ljósmyndarann í húsi sem sýndist þó ekki íbúðarhæft. Hann sýndi honum svo bílasafnið. Sprengja hafði hæft húsið og veggur þess hrundi ofan á Buick Super, árgerð 1955. „Sjáðu, hún grætur,“ sagði Anis og benti á dældu í vélarhlíf bílsins. 

Anis vill ekki fara frá Aleppo. Þar fæddist hann og þar vill hann deyja. Eid segist hafa áttað sig á því að sá gamli væri ekki í borginni til þess eins að reyna að vernda bílana sína. „Þetta snýst ekki lengur um bílana. Þetta snýst um gamlan mann og lífsvilja hans.“

Á meðan sprengjuárásir stjórnarhersins voru hvað mestar í Aleppo í fyrra flúði Anis borgina tímabundið. Hann er nú kominn aftur.

Og plötuspilarinn virkar enn. Hann sagðist samt ekki geta kveikt á honum nema að kveikja fyrst í pípunni.

Chevrolet Apache árgerið ´58 er meðal bíla sem eru fyrir …
Chevrolet Apache árgerið ´58 er meðal bíla sem eru fyrir utan hús Mohammad Mohiedine Anis í Aleppo. AFP

„Þessi maður sat þarna inni, í svefnherberginu þar sem hann sefur enn, án glugga, án hurðar. Veggurinn hlýtur að fara að hrynja. Og hann er að hlusta á tónlist. Hann er að reykja pípu,“ segir Eid um Anis í samtali við Washington Post.

Eid er nú kominn aftur heim til fjölskyldu sinnar í Líbanon. Hann hefur ekki heyrt í Anis síðan myndin var tekin þann 9. mars.

En hvers vegna snertir myndin svona mikið við fólki að mati Eids?

Hann segir ástæðurnar nokkrar. „En myndin gefur líka von. Sjáið til, við höfðum niðurrif. Nú er tímabært að leyfa tónlistinni að óma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert