Segjast hafa skotið niður ísraelska herþotu

Sýrlenskur skriðdreki í borginni Palmyra.
Sýrlenskur skriðdreki í borginni Palmyra. AFP

Sýrlenski herinn segist hafa skotið niður ísraelska herþotu og hæft aðra er hann var við loftárásir í nágrenni borginnar Palmyra. 

Í tilkynningu frá hernum segir að skotið hafi verið á tvær ísraelskar þotur og önnur hafi hrapað. Aðrar þotur sem voru á svæðinu hefðu flúið. 

Ísraelski herinn sagði fyrr í dag að hann hefði gert loftárásir í Sýrlandi í nótt. Í þeirri yfirlýsingu kom fram að engin flugskeyti sýrlenska hersins sem skotið var að flotanum frá jörðu niðri hefði hæft þotur þeirra.

Sýrlenski stjórnarherinn segir að fjórar ísraelskar herþotur hafi skotið á „hernaðarleg skotmörk“ á leið sinni til Palmyra í nótt. Í yfirlýsingu segir að þotur Ísraela hafi farið inn í lofthelgi Sýrlands rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma í gegnum lofthelgi Líbanons. Í kjölfarið hafi verið ráðist á þær og skotið á þær. 

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að atvikið sé það alvarlegasta sem komið hafi upp í samskiptum ríkjanna frá því að stríðið í Sýrlandi braust út árið 2011, fyrir sex árum síðan.

Sýrlenski herinn segir árás þess ísraelska „svívirðilega“ og að henni verði svarað með öllum tiltækum ráðum. 

Herinn í Sýrlandi náði völdum yfir borginni Palmyra í byrjun mánaðarins eftir að hafa misst hana í hendur vígamanna Ríkis íslams í annað sinn. 

Í janúar sakaði ríkisstjórn Sýrlands Ísraela um árásir á herstöð í nágrenni Damaskus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert