Eiginkona Fillon einnig ákærð

Penelope Fillon.
Penelope Fillon. AFP

Formleg rannsókn er hafin á eiginkonu forsetaframbjóðanda repúblikana í Frakklandi, Penelope Fillon, en hún er sökuð um að hafa þegið laun frá franska þinginu fyrir að aðstoða eiginmann sinn, François Fillon. Efast er um að hún hafi sinnt starfinu og hefur umfjöllun um þetta mál reynst Fillon erfiður ljár í þúfu í kosningabaráttunni. Frakkar kjósa sér nýjan forseta 23. apríl.

Penelope Fillon er ákærð fyrir fjárdrátt, misnotkun á opinberu fé og fjársvik. Ákæran (mise en examen) var birt í gærkvöldi en þá hafði hún verið yfirheyrð af saksóknara í nokkrar klukkustundir.

Rannsókn hófst á hlut eiginmanns hennar fyrir tveimur vikum en hann hefur ekki viljað draga framboð sitt til baka. Við upphaf árs var talið nánast öruggt að Fillon yrði næsti forseti Frakklands en allt bendir til að sú von sé að engu orðin.

Þegar tæpar fjórar vikur eru til kjördags eru þau Marine Le Pen, frambjóðandi Front National, og miðjumaðurinn Emmanuel Macron talin líklegust til að hreppa hnossið. Hins vegar er ólíklegt að annað hvort þeirra fái meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni og því þurfi að kjósa á milli þeirra tveggja 7. maí.

Sá þriðji sem er með stöðu grunaðs manns í fjársvikamálinu er Marc Joulaud en hann tók við þingsæti Fillon þegar hann varð ráðherra. Hann var einnig skráður sem vinnuveitandi Penelope Fillon á franska þinginu (Assemblée Nationale) og lét greiða henni laun fyrir að aðstoða sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert