Óásættanlegt fjöldamorð segir páfi

Sjúkrahúsið í Khan Sheikhun eftir árás sem gerð var á …
Sjúkrahúsið í Khan Sheikhun eftir árás sem gerð var á það eftir efnavopnaárásina. AFP

Frans páfi fordæmir efnavopnaárásina í Idlib-héraði í gær og segir hana óásættanlegt fjöldamorð. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðina, segir árásina stríðsglæp en rússnesk og sýrlensk yfirvöld segja að árásin hafi beinst að vöruhúsi hryðjuverkamanna sem hýsti eiturefni.

Skjáskot af Twitter

Vitað er að 72 létust í árásinni en af þeim eru 20 börn. Vitni segja ástandið skelfilegt, fólk lá eins og hráviði út um allt, hvít froða vall úr munnvikum þeirra og líkamar þeirra hristust til og frá í krampaköstum.

Talið er að fleiri hundruð hafi særst í árásinni en ekki hefur tekist að koma öllum til aðstoðar. Því eru tölur um bæði látna og særða enn á reiki. Ekki hefur auðveldað hjálparstarfið að sýrlenskar herþotur gerðu árásir á sjúkrahús og læknastofur þar sem verið var að veita særðum læknishjálp. 

AFP

Frans páfi sagði í morgun að heimurinn fylgist með fullur hryllingi á nýjustu atburðina í stríðinu í Sýrlandi. 

„Ég harma heilshugar óásættanleg fjöldamorð sem áttu sér stað í Idlib-héraði í gær en þar létust tugir varnarlausra, þar á meðal mörg börn,“ sagði páfi þegar hann ávarpaði áhorfendur á Péturstorgi í Róm í morgun. 

Frans páfi gagnrýnir forseta Sýrlands harðlega fyrir grimmdarverk hans í …
Frans páfi gagnrýnir forseta Sýrlands harðlega fyrir grimmdarverk hans í Idlib-héraði. AFP

Ekki eru allir á eitt sáttir um hvað hafi gerst þennan afdrifaríka morgun í þorpinu Khan Sheikhun. Rússar, sem hafa veitt forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, hernaðarlegan og diplómatískan stuðning, í baráttunni gegn uppreisnarmönnum, segja að fólkið hafi látist eftir að vöruhúsið hafi verið sprengt upp af stjórnarhernum. Þar hafi verið mikið magn búnaðar til sprengjugerðar auk annarra eiturefna. 

Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir allt benda til þess að forseti Sýrlands beiti ólöglegum vopnum gegn eigin þjóð og Guterres segir að alþjóðasamfélagið muni fara fram á að það verði upplýst um hver beri ábyrgð á stríðsglæpum í Idlib í gær.

Síðar í dag verður haldinn neyðarfundur í öryggisráði SÞ að beiðni Frakka og Breta en bandarísk yfirvöld hafa einnig gagnrýnt forseta Sýrlands harðlega fyrir árásina. 

Antonio Guterres kemur til fundarins í Brussel í morgun.
Antonio Guterres kemur til fundarins í Brussel í morgun. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að það þetta sýni hvernig forseti Sýrlands starfar - hrottaleg og blygðunarlaus villimennska.

Ef það verður staðfest að efnavopnum hafi verið beitt á íbúa Khan Sheikun er árásin ein sú mannskæðasta í Sýrlandi þar sem slíkum vopnum er beitt. Árásin var gerð árla morguns er íbúar Khan Sheikun vöknuðu upp við hvin herflugvéla sem vörpuðu sprengjum sem innihéldu eitraðar gastegundir á heimili þeirra. Einhverjir vöknuðu hins vegar aldrei. 

„Við hlupum inn í húsin og sáum heilu fjölskyldurnar látnar í rúmum sínum,“ segir Abu Mustafa íbúi í þorpinu í viðtali við AFP-fréttastofuna. „Börn, konur, gamalmenni liggjandi dáin á götum úti.“

Utanríkisráðherrar Bretlands og Liechtenstein,Boris Johnson og Aurelia Frick.
Utanríkisráðherrar Bretlands og Liechtenstein,Boris Johnson og Aurelia Frick. AFP

Samkvæmt mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights þjást að minnsta kosti 160 af eftirköstum vegna gassins en þau eru meðal annars uppköst, yfirlið, öndunarerfiðleikar og froða í munnvikum.

Læknirinn Hazem Shehwantold segir í samtali við AFP að hann hafi séð fórnarlömb árásarinnar með agnarsmá sjáöldur,  krampakippi, froðu vellandi út úr munnvikum og hraðan púls.

Læknar og annað sjúkralið unni sér vart hvíldar þar sem reynt var að veita særðum aðstoð langt fram á nótt. Fjölmargir þurftu á súrefnisgjöf að halda og eins var reynt að sprauta vatni á fólk til þess að hreinsa eiturefnin af því. Létu bráðaliðar sprengjuregn ekkert trufla sig ekki einu sinni að sprengjum var varpað á þá að störfum á sjúkrahúsi og læknastofum í nágrenninu. 

Faðir með barn sitt að bíða eftir aðstoð í Khan …
Faðir með barn sitt að bíða eftir aðstoð í Khan Sheikun í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert