Bandaríkin senda flotann að Kóreuskaga

Bandaríkjaher hefur sent hluta flota síns á hafsvæðið við Kóreuskagann. …
Bandaríkjaher hefur sent hluta flota síns á hafsvæðið við Kóreuskagann. Markmiðið er sagt að auka öryggið á svæðinu. AFP

Bandaríkjaher hefur sent hluta flota síns á hafsvæðið við Kóreuskagann. Markmiðið er sagt vera að auka öryggið á svæðinu, en flugskeytatilraunir Norður-Kóreu valda Bandaríkjunum og öðrum ríkjum á svæðinu áhyggjum.

Fréttavefur BBC hefur eftir Dave Benham, talsmanni hersins á Kyrrahafi, að skynsamlegt sé að viðhalda herstyrk á svæðinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir á fundi með Xi Jinping, forseta Kína, að Bandaríkin væru reiðubúin að takast ein á við ógnina sem stafaði frá Norður-Kóreu, ef Kínverjar treystu sér ekki til að hafa stjórn á Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu.

„Norður-Kórea heldur áfram að vera ein helsta ógnin á svæðinu, vegna ófyrirleitinna, óábyrgra og óöruggra flugskeytatilrauna og þróunar kjarnavopna,“ sagði Benham.

Flotadeildin átti að halda frá Singapore til Ástralíu samkvæmt áætlun, er henni var snúið við.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur tekið í sama streng og  Trump varðandi málefni Norður-Kóreu. Sagði Tillerson að Bandaríkin vildu gjarnan vinna með Kínverjum að lausn á vandanum sem stafaði frá Norður-Kóreu, en að þau væru tilbúin að fara sínar eigin leiðir ef Kínverjar ættu erfitt með að grípa til aðgerða gegn ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert