Rússa haldið á Spáni vegna víruss

Það virðast ekki öll kurl komin til grafar varðandi forsetakosningarnar …
Það virðast ekki öll kurl komin til grafar varðandi forsetakosningarnar vestanhafs. AFP

Eiginkonu rússnesks tölvunarfræðings, sem hefur verið handtekinn á Spáni, hefur verið tjáð að hann sé grunaður um að hafa smíðað tölvuvírus sem tengist kosningasigri Donalds Trumps vestanhafs.

Maðurinn var handtekinn á flugvelli í Barcelona á föstudag af tæknideild lögreglunnar, sem var að fylgja eftir „alþjóðlegri kvörtun,“ að sögn talsmanns lögregluyfirvalda á Spáni.

Hann var síðar fluttur til Madríd.

Eiginkona mannsins, Maria Levachova, sagði í samtali við Russia Today að honum væri haldið að beiðni bandarískra yfirvalda í tengslum við tölvuglæp. Miðillinn hefur eftir Levachova að lögregla hafi tjáð henni að vírus sem maður hennar smíðaði hafi verið tengdur við sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Hvorki lögregluyfirvöld á Spáni né ræðisskrifstofa Rússa vildi staðfesta handtökuna þegar AFP leitaði eftir því.

Rússar hafa verið sakaðir um afskipti af forsetakosningunum í þeim tilgangi að auka sigurlíkur Trumps. Annar rússneskur tölvunafræðingur var handtekinn í Barcelona í janúar sl. að beiðni bandarískra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert