Sýktur fiskur og heitt kjöt

Trump er ákaflega hrifinn af sveitaklúbbnum og hefur heimsótt hann …
Trump er ákaflega hrifinn af sveitaklúbbnum og hefur heimsótt hann sjö sinnum frá því hann tók embætti. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Flórída hafa veitt Mar-a-Lago, sveitaklúbbi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, nokkrar viðvaranir vegna alvarlegra brota tengdra matvælaöryggi.

Í janúar sl., nokkrum dögum áður en Trump tók á móti Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, á staðnum komust eftirlitsmenn að því að gestum hafði verið boðinn hrár fiskur, mögulega sýktur af sníkjudýrum, og þá reyndist kjöt hafa verið geymt í biluðum kælum við of háan hita.

Tíu önnur brot þóttu ekki jafn alvarleg en meðal þeirra voru ryðgaðar hillur í kæligeymslu og sú staðreynd að starfsmenn gátu ekki haldið höndunum nægilega hreinum vegna skorts á heitu vatni í vöskum.

Brotunum er lýst í skýrslu á vegum viðskipta- og eftirlitsyfirvalda í Flórída en það var Miami Herald sem ljóstraði upp um hana. Samkvæmt skýrslunni var umsvifalaust bætt úr nær öllum atriðum sem þóttu ekki í lagi.

Trump mun dvelja í Mar-a-Lago yfir páskahátíðina.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert