Bandarískir hermenn til Sómalíu

Forseti Sómalíu, Mohamed Abdullahi Mohamed, gengur framhjá heiðursverði í Kenía …
Forseti Sómalíu, Mohamed Abdullahi Mohamed, gengur framhjá heiðursverði í Kenía í mars síðastliðnum. AFP

Tugir hermanna frá Bandaríkjunum eru á leið til Sómalíu þar sem þeir eiga að aðstoða her landsins og stýra ótilgreindum öryggisaðgerðum. Þetta segir talsmaður Bandaríkjahers.

Hermennirnir koma úr röðum 101. herdeildarinnar, sem sérhæfir sig í árásum úr lofti. Segir talsmaðurinn að þeir muni aðallega þjálfa og vopnbúa her Sómalíu svo hann geti betur barist við hryðjuverkasamtökin Al-Shabab, sem tengd eru Al-Qaeda.

Þá munu þeir einnig stjórna „öryggisaðstoð“ samkvæmt talsmanninum, sem neitaði að svara spurningum um hvers kyns hún kynni að vera.

Ríkisstjórn Sómalíu hefur lengi verið brothætt en hún stendur enn vegna stuðnings frá alþjóðasamfélaginu og 22 þúsund hermanna frá Afríkusambandinu.

Skæruliðar Al-Shabab hafa misst talsvert landsvæði úr greipum sínum á undanförnum árum og voru hraktir út úr höfuðborginni Mogadishu árið 2011. Þeir halda þó áfram árásum þar og í sveitum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert