Drápu fólk sem flytja átti á brott

Beðið eftir rútu.
Beðið eftir rútu. AFP

Að minnsta kosti 16 eru látnir eftir að bílsprengja sprakk á skiptistöð þar sem fólk sem verið er að flytja á brott frá stríðshrjáðum bæjum í Sýrlandi.

Um er að ræða bæina Fuaa og Kafraya en sprengjan sprakk í Rashidin, vestur af Aleppo. Fólkið hafði verið flutt á brott úr bæjunum í gær og beið eftir rútum sem flytja átti það á öruggari staði. Um er að ræða þúsundir íbúa bæjanna en stjórnarherinn hefur náð þeim á sitt vald. Samkomulag náðist um að leyfa íbúunum að yfirgefa bæina líkt og gert var í Aleppo.

Samkvæmt BBC hafa þúsundir beðið á milli vonar og ótta í sólarhring eftir því að vera fluttir á brott en alls verða 30 þúsund fluttir á brott úr fjórum bæjum, tveimur sem eru undir yfirráðum stjórnarhersins og tveggja sem eru undir yfirráðum uppreisnarmanna.

AFP

Uppreisnarmenn segja að stjórnvöld hafi rofið samkomulagið sem var gert að undirlagi yfirvalda í Íran og Katar. 

Í síðasta mánuði lýstu Sameinuðu þjóðirnar ástandinu á þessu svæði sem og í bæjunum Madaya og Zabadani, sem eru undir yfirráðum uppreisnarmanna, sem stórslysi þar sem yfir 64 þúsund almennir borgarar búa við hungur og ofbeldi er daglegt brauð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert