Hóta vikulegum flugskeytatilraunum

Norður-kóreskur hermaður við landamæri Norður- og Suður-Kóreu. Norður-kóresk stjórnvöld ætla …
Norður-kóreskur hermaður við landamæri Norður- og Suður-Kóreu. Norður-kóresk stjórnvöld ætla ekki að láta af flugskeytatilraunum sínum. AFP

Norður-Kórea mun halda flugskeytatilraunum sínum áfram þrátt fyrir fordæmingu alþjóðasamfélagsins og vaxandi spennu milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. „Við munum standa fyrir flugskeytatilraunum á vikulegum, mánaðarlegum og árlegum grunni,“ sagði Han Song-ryol, aðstoðarutanríkisráðherra landsins, í samtali við BBC.

Sagði Han „allsherjar stríð“ brjótast út ákveði Bandaríkin að grípa til hernaðaraðgerða.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, varaði í gær Norður-Kóreu við því að láta reyna á hvort Bandaríkin stæðu við stóru orðin. Sagði hann tímabili þolinmæði Bandaríkjastjórnar í garð Norður-Kóreu vera lokið.

Hóta kjarnorkuárás 

Spenna milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hefur farið stigvaxandi undanfarið og hafa stjórnendur beggja ríkja ekki sparað stóru orðin í deilum sínum.

„Ef Bandaríkin eru að skipuleggja hernaðarárás á okkur munum við bregðast fyrr við með kjarnorkuárás sem verður framkvæmd með okkar hætti,“ sagði Han við BBC.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, hvatti í dag til þess að friðsamleg lausn yrði fundin á spennunni á Kóreuskaga. Abe ræðir í dag við Pence sem er í heimsókn  í Japan. „Það er verulega mikilvægt fyrir okkur að nýta diplómatíska og friðsamlega lausn á málinu,“ sagði Abe.

„Á sama tíma er tilgangslaust að ræða saman bara viðræðnanna vegna og þess vegna er nauðsynlegt að beita þrýstingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert