Vannærð börn 50% fleiri en í upphafi árs

Um 1,4 milljónir sómalskra barna þjást nú af alvarlegri vannæringu eða munu gera það á næstu mánuðum. Þetta eru helmingi fleiri alvarlega vannærð börn en voru í landinu við upphaf árs. Ástandið ógnar lífi um 275 þúsund barna. Alvarlega vannærð börn eru níu sinnum líklegri en önnur til að deyja úr sjúkdómum á borð við kóleru, niðurgangi og mislingum en allt eru þetta sjúkdómar sé eru að dreifast út í landinu.

Í hungursneyðinni í Sómalíu árið 2011 létust um 260 þúsund manns. Um helmingur þeirra voru ung börn. Flest létust þau vegna niðurgangs og mislinga.

Fleiri þúsund börn ganga ekki í skóla í Sómalíu. Gríðarlegir þurrkar hafa geisað en nú er regntímabil að hefjast. Þó að vonast sé til að rigning muni falla þá gæti hún haft alvarleg áhrif á þá sem dvelja í bráðabirgða búðum fyrir flóttamenn. Mikil hætta er á flóðum og lífi barna því ógnað af þessum sökum.

UNICEF og samstarfsaðilar hafa þegar meðhöndlað 56.000 börn gegn alvarlegri vannæringu, meðal annars með stuðningi frá Íslandi. UNICEF hefur sett upp 330 nýjar næringarmiðstöðvar í Sómalíu og styður nú 837 slíkar miðstöðvar vítt og breitt um landið. 92% barnanna sem fengið hafa aðstoð þar hafa náð sér.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að tryggja fólki hreint vatn og ein milljón manna hefur nú fengið aðgang að hreinu vatni. Talan í janúar var 300.000. Sjúkdómar smitast auðveldlega með óhreinu vatni – sem aftur kemur verst niður á vannærðum börnum – og því er forgangsmál að tryggja hreint vatn og hreinlæti.

Fjöldi heilsugæslustöðva hafa að auki fengið stuðning og þar hefur okkur tekist að ná til 380.000 barna og kvenna, meðal annars með lífsnauðsynlegar bólusetningar.

Neyðarsöfnunin UNICEF á Íslandi fyrir Sómalíu, Suður-Súdan, Jemen og Nígeríu stendur enn sem hæst. Vel yfir 10 milljónir króna safnast nú þegar, frá fólki um land allt. Þessi framlög fara meðal annars í neyðaraðgerðirnar í Sómalíu sem lýst er hér að neðan. Það gera líka framlög heimsforeldra – en hér á landi eru vel yfir 25.000 heimsforeldrar.

Sómalskar mæður með vannærð börn sín á heilsugæslustöð í nágrenni …
Sómalskar mæður með vannærð börn sín á heilsugæslustöð í nágrenni höfuðborgarinnar Mógadisjú. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert