Hvað verður tilkynnt í höllinni?

Elísabet II Englandsdrottning.
Elísabet II Englandsdrottning. AFP

Sjónvarpstökumenn eru byrjaðir að koma sér fyrir fyrir utan Buckingham-höll, heimili Elísabetar Englandsdrottningar í London, eftir að allt starfsfólk konungsfjölskyldunnar var boðað til starfsmannafundar. Slíkt er afar óvenjulegt og vænta menn þess að eitthvað afar mikilvægt verði kynnt á fundinum.

Samkvæmt frétt Daily Mail er um að ræða starfsfólk fjölskyldunnar alls staðar í Bretlandi en það fékk boð seint í gærkvöldi um að mæta á fund nú í dag í Buckingham-höll.

Talsmaður hallarinnar neitaði að tjá sig um málið við fréttamann AFP en orðrómur um fundinn fer um samfélagsmiðla. Nokkrir aðdáendur konungsfjölskyldunnar eru þegar mættir fyrir utan höllina ásamt fjölmiðlafólki sem ekki ætlar að missa af neinu.

„Ég ákvað að kíkja hingað eftir að frændi minn hafði samband við mig frá Los Angeles og sagði að það væri eitthvað að gerast í höllinni,“ segir bandaríska leikkonan Kim Tatum við fréttamann AFP fyrir utan höllina í morgun.

Elísabet II, sem er 91 árs að aldri, kom til hallarinnar í gær eftir að hafa eytt páskum í Windsor-kastala.

Síðdegis í gær átti hún fund með forsætisráðherra, Theresu May, vegna þingloka fyrir þingkosningarnar 8. júní. 

Eiginmaður hennar, Filippus drottningarmaður, sem verður 96 ára í júní, var viðstaddur opnun nýrrar stúku á krikketvelli í gær. 

Elísabet II Englandsdrottning fagnaði í febrúar 65 ára valdaafmæli sínu en enginn þjóðhöfðingi hefur áður náð að sitja svo lengi á valdastóli.

Elísabet, sem fagnaði níræðisafmæli sínu á síðasta ári, var aðeins 25 ára gömul þegar hún tók við krúnunni af föður sínum, Georgi VI, árið 1952. Sonur hennar og Filippusar, Karl, prins af Wales, bíður enn eftir að röðin komi að sér, en hann verður sjötugur á næsta ári.

Uppfært 8:10:

Samkvæmt heimildum BBC snýst fundurinn ekki um heilsu Elísabetar II né Filippus drottningarmanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert