Semja um brottflutning frá Damaskus

Friður hefur ríkt í nokkrum hverfum Damaskus í Sýrlandi í …
Friður hefur ríkt í nokkrum hverfum Damaskus í Sýrlandi í dag. Vonast er til að samkomulag náist um brottflutning uppreisnarmanna og óbreyttra borgara. AFP

Samningaviðræður hafa staðið yfir í dag um að koma uppreisnarmönnum og fjölskyldum þeirra frá hverfum í Damaskus. Þetta herma heimildir AFP-fréttastofunnar innan úr herbúðum stjórnarhersins.

Gangi viðræðurnar að óskum er þetta í fysta sinn sem uppreisnarmönnum verður komið með samkomulagi frá höfuðborg Sýrlands frá því að stríðið braust út fyrir sex árum.

Sambærilegar rýmingar hafa, samkvæmt samkomulagi, farið fram í öðrum borgum og bæjum í nágrenni Damaskus.

Samningamenn hafa verið fengnir til að miðla málum. Í fyrstu er um tvö hverfi að ræða, Barzeh og Qabun. Vonast er til þess að rýming í Barzeh-hverfi geti hafist á morgun. Ekki er ljóst hversu mörgum uppreisnarmönnum verður leyft að yfirgefa svæðið í friði.

Viðræður um rýmingu eru að frumkvæði Rússa, Írana og Tyrkja  en allar þessar þjóðir hafa með óbeinum og beinum hætti komið að hernaðinum í Sýrlandi. Reynt verður að koma öruggum svæðum í landinu þar sem engir bardagar verða háðir eða árásir gerðar. 

Uppreisnarmenn fara nú með völd í fimm hverfum Damaskus. Í Qabun-hverfi hafa verið gerðar fjölmargar árásir á undanförnum vikum eftir að stjórnarherinn hóf áhlaup á svæðinu. Vopnahléi hefur verið lýst yfir á meðan samningaviðræður um rýmingu standa yfir.

Mannréttindasamtök í landinu staðfesta að friður hafi ríkt í hverfunum tveimur í dag. Gangi viðræðurnar vel og samkomulag næst mun það hafa áhrif á nokkur þúsund uppreisnarmenn sem og óbreytta borgara sem eru í herkví í hverfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert