Úr kennarastarfi í forsetahöllina

Brigitte Trogneux, næsta forsetafrú Frakka.
Brigitte Trogneux, næsta forsetafrú Frakka. AFP

Hún hefur verið við hlið eiginmannsins frá því að hann var fimmtán ára gamall. Fyrst var hún kennari hans, svo ástkona og nú er hún orðin forsetafrú Frakklands. 

Brigitte Trogneux mun standa við hlið eiginmannsins, Emmanuel Macron, er hann tekur við embætti forseta Frakklands eftir að hafa borið sigur úr býtum í kosningunum þar í landi í dag. Eiginmaðurinn er 39 ára gamall, sá yngsti til að gegna forsetaembættinu hingað til. 

Hin 64 ára gamla Brigitte verður helsti ráðgjafi eiginmannsins á forsetastóli. Hann hefur sagt að hún muni fá mikilvægt hlutverk í forsetahöllinni.

Brigitte Trogneux kyssir eiginmanninn rembingskossi á framboðsfundi í síðasta mánuði.
Brigitte Trogneux kyssir eiginmanninn rembingskossi á framboðsfundi í síðasta mánuði. AFP

„Á hverju kvöldi gefum við hvort öðru skýrslu og endurtökum hvað við höfum heyrt um hvort annað,“ sagði hún í viðtali við tímaritið Paris Match í fyrra. „Ég hef þurft að fylgjast með öllu, ganga langt til að vernda hann.“

Brigitte hefur prýtt forsíður fjölmargra tímarita undanfarin misseri og staðið þétt við hlið hans á hverjum framboðsfundinum á fætur öðrum. Margir eru heillaðir af óvenjulegri ástarsögu þeirra.

Áður en það allt saman kom til var hún gift öðrum manni og hafði eignast þrjú börn. Hún kenndi frönsku, latínu og leiklist. Segja má að hún hafi verið á leið að þægilegu og hefðbundnu lífi.

Brigitte Trogneux er fædd 13. apríl árið 1953 í Amiens í norðurhluta Frakklands. Hún ólst upp hjá efnaðri fjölskyldu sem rak bakarí og súkkulaðiframleiðslu.

Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte Trogneux saman í skíðalyftu …
Emmanuel Macron og eiginkona hans Brigitte Trogneux saman í skíðalyftu á meðan kosningabaráttunni stóð. AFP

En snemma á tíunda áratugnum heillaðist hún af ungum manni sem lék hlutverk í leikriti byggðu á sögu eftir Milan Kundera. Þessi ungi leikari var Emmanuel. Hann bað hana að hjálpa sér við leiklesturinn og hún var ekki sein að svara þeirri bón játandi. Þau tengdust fljótt sterkum böndum.

Brigitte var þá 39 ára og segist hafa orðið algjörlega heilluð af gáfum hins fimmtán ára gamla Emmanuel. Tilfinningarnar voru endurgoldnar og tveimur árum síðar setti hann fram spádóm sinn. „Þegar Emmanuel var sautján ára sagði hann við mig: „Hvað sem þú gerir mun ég giftast þér,““ rifjaði Brigitte upp í viðtali í síðasta mánuði.

Emmanuel Macron fór og lauk námi við virtan menntaskóla í París. Hann gafst ekki upp á að fara á fjörurnar við Brigitte. 

Brigitte skildi við eiginmann sinn, bankamanninn Andre Louis Auziere, árið 2006. Ári síðar giftist hún Macron. Hún flutti til Parísar þar sem hann hélt áfram námi. Þar vann hún sem kennari.

Brigitte Trogneux fór á kjörstað með eiginmanni sínum Emmanuel Macron …
Brigitte Trogneux fór á kjörstað með eiginmanni sínum Emmanuel Macron í morgun. AFP

„Þegar ég ákveð eitthvað framkvæmi ég það,“ sagði hún í heimildarmynd um Emmanuel.

Henni er lýst sem hlýrri og jarðbundinni manneskju af þeim sem hana þekkja. Hún er sögð hafa mikla útgeislun og vera mjög jákvæð að eðlisfari.

Einn vinur hennar, Gregoire Campion, kynntist henni í fríi í strandbænum Le Touquet fyrir fjórum áratugum. Þau dvöldu þá í húsum hlið við hlið á ströndinni. Hann segir að Brigitte hafi verið róleg ung kona og mjög vel að sér. 

Le Touquet hefur alla tíð verið stór hluti af lífi Brigitte. Þar dvelur hún oft ásamt börnum sínum og barnabörnunum sjö. 

En tíminn sem hún hefur til afslöppunar hefur ekki verið mikill upp á síðkastið. „Ég er heppin að deila þessu með Emmanuel,“ segir hún um líf sitt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert