Skyndi skilnaðir fyrir hæstarétt

Sumir tilkynna um skilnaðinn með sms eða á samfélagsmiðlum.
Sumir tilkynna um skilnaðinn með sms eða á samfélagsmiðlum. AFP

Hæstiréttur Indlands hefur formlega hafið rannsókn á því hvort það að karlmaður sem segi orðið skilnaður í þrígang sé grundvallaratriði í íslam-trú. Skyndiskilnaðir sem þessir hafa verið harðlega gagnrýndir og margar beiðnir borist til hæstaréttar um að skoða gildi þeirra. 

Indland er eitt fárra ríkja í heiminum þar sem karlar sem eru múslímar geta skilið við eiginkonu sína á nokkrum mínútum. Það eina sem þeir þurfa er að að segja orðið talaq (skilaður) þrisvar. 

Aðgerðarsinnar segja heimildina mismuna fólki en mörg samtök múslíma hafa gagnrýnt afskipti hæstaréttar af trúarmálum. Aftur á móti er ríkisstjórn Narendra Modi fylgjandi því að hæstiréttur taki það til skoðunar hvort slíkir skilnaðir standist lög landsins. Fimm dómarar eru í hæstarétti við málflutninginn og er enginn þeirra sömu trúar. Einn er hindúi, einn síki, einn kristinn, einn Zaraþústratrúar og sá fimmti múslími. 

Ein þeirra sem hefur gagnrýnt slíka skyndi skilnaði er Shayara Bano, 35 ára tveggja barna móðir. Í viðtali við BBC lýsir hún því þegar hún heimsótti foreldra í Uttarakhand-héraði og leitaði sér lækninga. Á meðan hún dvaldi þar í október 2015 fékk hún bréf frá eiginmanninum sem tilkynnti henni að hann væri að skilja við hana. Síðan þá hefur hún ekki getað náð sambandi við eiginmann sinn til 15 ára en hann býr í borginni Allahabad.

„Hann slökkti á símanum sínum og mér tókst ekki að ná sambandi við hann,“ segir hún í viðtali við BBC. Hún segir að þetta hafi haft ömurleg áhrif á líf barna þeirra í kjölfarið. Í fyrra sendi hún hæstarétti bréf þar sem hún krafðist þess að slíkir skyndi skilnaðir yrðu bannaðir. Enda heimili þeir múslímum að koma fram við konur sínar eins og búpening.

Þrátt fyrir að skyndi skilnaðir hafi verið stundaðir áratugum saman er ekkert minnst á þá í saria-lögum né Kórarninum. Fræðimenn í íslömskum fræðum segja að í Kórarninum sé nákvæmlega útlistað hvernig megi standa að skilnaði. Ferli sem taki þrjá mánuði svo hjón fái tíma og næði til þess íhuga og að ná sáttum. 

Aðgerðarsinnar segja að flest múslímalönd, svo sem Pakistan og Bangladess hafi bannað slíka skyndi skilnaði en þeir séu enn leyfðir í Indlandi. 

Undanfarin ár hafa margir múslímar í Indlandi tilkynnt eiginkonum sínum um að þeir væru að skilja við þær með ýmsum hætti. Svo sem sent þeim bréf, smáskilaboð og í símtali. Jafnvel eru dæmi um að maður sagðist hafa sagt orðið skilnaður í þrígang upp úr svefni. 

Samfélagsmiðlar njóta aukinna vinsælda við að koma slíkum skilaboðum áleiðis. Svo sem á  Skype, WhatsApp og Facebook.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert