Hillary Clinton aftur í stjórnmálin

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Hillary Clinton hefur snúið aftur í stjórnmálin með nýrri stjórnmálahreyfingu sem kallast Onward Together en hreyfingunni er ætlað að hvetja fólk til stjórnmálaþátttöku og að bjóða sig fram til opinberra embætta. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Clinton greinir frá þessu meðal annars á samfélagsmiðlinum Twitter.



Lítið hefur farið fyrir Clinton síðan hún laut í lægra haldi fyrir Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári. Fram kemur í fréttinni að svo virðist sem hreyfingunni sé þó einkum ætlað að hvetja þá til þátttöku í stjórnmálum og til að bjóða sig fram sem eru sammála hugmyndafræði og áherslum bandarískra demókrata.

Þannig segir á vefsíðu hreyfingarinnar að markmið hennar sé að vinna að þeirri hugsjón sem hafi fengið stuðning tæplega 66 milljóna atkvæða í síðustu kosningum en það er sá fjöldi sem kaus Clinton. Ekki er minnst á Trump með nafni en ljóst er af efni vefsíðunnar að hreyfingunni er ætlað að berjast gegn áherslum forsetans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert