Trump væntanlegur til Ísrael

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Ísrael og Palestínu í tveggja daga heimsókn til ríkjanna. Trump flýgur til Tel Aviv frá Sádi-Arabíu þar sem hann hóf fyrstu opinberu heimsókn sína frá því hann tók við embætti forseta í lok janúar.

Trump mun ræða við leiðtoga Ísrael og Palestínu en hann hvetur ríkin tvö til þess að komast að friðarsamkomulagi. Hann hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um hvað eigi að felast í friðarsamkomulagi Ísraela og Palestínumanna og segir að það sé í höndum leiðtoga ríkjanna tveggja.

Flugvél forsetans lendir í Tel Aviv síðdegis í dag og þar mun hann eiga fund með forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu. Þeir munu síðan fara saman til Jerúsalem, helgrar borgar múslima, kristinna og gyðinga.

Fyrsti viðkomustaður Trump í Jerúsalem er Grafarkirkjan á Hausaskeljastað sem er einn helgasti staður kristinna manna. Þar er meðal annars minnst krossfestingarinnar og tómu grafarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert