Hvað gerir Trump í loftslagsmálunum?

Trump mun mögulega freista þess að endursemja um skilmála Parísarsamkomulagsins.
Trump mun mögulega freista þess að endursemja um skilmála Parísarsamkomulagsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa tekið ákvörðun um afstöðu sína til Parísarsamkomulagsins um aðgerðir í loftslagsmálum. Einn miðill hefur eftir heimildarmönnum að Trump hyggist draga Bandaríkin úr samkomulaginu en menn deila um hvort það sé jafn slæmt og menn hafa óttast.

Guardian og Independent hafa greint frá frétt axios.com sem birtist fyrir um klukkustund síðan, þar sem haft er eftir heimildarmönnum að Trump hafi ákveðið að kasta Parísarsamkomulaginu fyrir róða fyrir hönd Bandaríkjanna.

Þar segir frá því að lítill hópur fólks vinni að því að útfæra ákvörðunina en enn eigi eftir að ákveða hvort Bandaríkjamenn segja sig frá Parísarsamkomulaginu, sem getur tekið þrjú ár, eða segi sig alfarið frá loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem væri einfaldara en afdrifaríkara skref.

Scott Pruitt, yfirmaður bandarísku umverfisverndarstofnunarinnar, er sagður vera meðal þeirra sem eru að skoða málið.

Trump hefur sagt að hann muni taka ákvörðun um aðkomu Bandaríkjamanna að Parísarsamkomulaginu í þessari viku en bandamenn og umverfisverndarsamtök hafa hvatt hann eindregið til að halda sig við samkomulagið.

Samkvæmt Guardian hafa sérfræðingar setið við útreikninga til að áætla hvaða afleiðingar brottganga Bandaríkjanna myndi hafa og benda niðurstöðurnar til þess að ákvörðunin myndi hafa í för með sér 3 milljarða tonna viðbótarkolefnislosun á ári og 0,1-0,3 stiga hækkun higastigs fyrir aldarlok.

Áhrifin yrðu enn meiri ef fleiri fetuðu í fótspor Bandaríkjanna og gæti það mögulega haft í för með sér aukna hækkun sjávar, þurrka, matvælaskort og útdauða tegunda.

Nokkrir af nánustu samstarfsmönnum Trump hafa sagt Parísarsamkomulagið „slæman samning“, …
Nokkrir af nánustu samstarfsmönnum Trump hafa sagt Parísarsamkomulagið „slæman samning“, enda rímar það ekki við stefnu stjórnarinnar um að fella úr gildi ýmsar reglugerðir ríkisstjórnar Barack Obama er varða umhverfismál. AFP

Á alþjóðasviðinu gæti Kína mögulega tekið forystuna í loftslagsmálum en stjórnvöld þar í landi hyggjast verja 360 milljörðum dala í fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2020 og skapa meira en 13 milljón störf í geiranum.

Ef efnahagsleg áhrif brottgöngu hræða ekki Trump gætu diplómatísk- og öryggisjónarmið gert það en utanríkisráðherrann Rex Tillerson er meðal þeirra sem hafa hvatt til þess að Bandaríkjamenn „eigi sæti við borðið“ til að halda alþjóðlegri stöðu sinni.

En það eru ekki allir á einu máli um að brottganga Bandaríkjanna sé endilega svo slæm. 

„Að vilja Bandaríkin áfram með er skammsýnt, ósjálfrátt viðbragð,“ segir Luke Kemp, sérfræðingur í alþjóðlegri stefnumótun í umhverfismálum við Australian National University. „Alþjóðasamfélagið ætti að hafa miklu meiri áhyggjur af aðgerðum Bandaríkjanna heima fyrir en því hvort þau eiga í táknrænni alþjóðlegri samvinnu,“ segir hann.

Kemp segir Trump geta valdið meiri skaða sem aðili að samkomulaginu en einhver sem stendur utan þess.

Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, gat ekki svarað því í gær hvort forsetinn tryði því að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum. „Í fullri hreinskilni þá hef ég ekki spurt hann,“ svaraði Spicer. „Ég get athugað það og svarað þér seinna.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert