Starfa við afar erfiðar aðstæður

Slökkviliðsmenn á vettvangi brunans í London.
Slökkviliðsmenn á vettvangi brunans í London. AFP

Einhverjir slökkviliðsmanna, sem unnið hafa á vettvangi brunans mikla sem geisar í London, hafa slasast lítillega við skyldustörf sín á vettvangi. Þá notuðust þeir meðal annars við lögregluskildi til að verja sig frá logandi braski sem féll úr byggingunni.

Þegar blaðamaður BBC kallaði eftir viðbrögðum slökkviliðsmanna á vettvangi vegna brunans kváðust þeir ekki hafa heimild til að tjá sig um aðgerðirnar í neinum smáatriðum en að þeir hafi unnið að því að bjarga íbúum út úr byggingunni.

Einhverjir þeirra höfðu notað allt upp í fjóra kúta af súrefni til að geta unnið í návígi við eldinn en það þykir óvenju mikið.

„Við getum orðað það þannig að maður á að hámarki að vinna við eld í fjórar klukkustundir, við erum búnir að vera hér í tólf. Vonandi getum við farið heim á einhverjum tímapunkti áður en við þurfum að mæta aftur í kvöld,“ sagði einn slökkviliðsmanna á svæðinu.

Þá sagðist einn þeirra aldrei hafa séð neitt í líkingu við eldsvoðann í Grenfell-turni. „Og ég vona að ég sjái aldrei neitt þessu líkt aftur. Það væri óheppni að sjá þetta tvisvar. Þetta er óraunverulegt.“

Hér má sjá myndband sem slökkviliðið birti fyrir skömmu. Þar sést hvernig ennþá logar úr byggingunni þótt tekist hafi að bæla niður mestan eldinn sem teygði á tímabili anga sína út um nær alla glugga og veggi byggingarinnar.

Grunur leikur á um að rekja megi alvarleika eldsvoðann til eldfimrar klæðningar byggingarinnar. Þá er hluti eldvarnarþátta í byggingunni sagður hafa tímabundið verið fjarlægðir úr byggingunni þegar endurbætur voru gerðar á húsinu nýlega. Eldvarnirnar sem um ræðir áttu að koma í veg fyrir að eldur breiddi úr sér á milli hæða byggingarinnar.

Vegna framkvæmdanna sem voru seint á síðasta ári þurfti að skipta um hitalagnir og þurfti sökum þessa að fjarlægja eldvarnarkerfi að því er viðskiptablaðið Inside Housing greinir frá. Staðið hafi til að setja eldvarnirnar aftur á sinn stað en óljóst var hvenær því ætti að koma í verk. Byggingarfyrirtækið sem annaðist verkið fullyrðir þó að farið hafi verið að öllum reglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert