Lík Warmbier ekki krufið

Otto Frederick Warmbier í febrúar í fyrra.
Otto Frederick Warmbier í febrúar í fyrra. AFP

Fjölskylda Otto Warmbier, sem lést eftir að hafa verið haldi í Norður-Kóreu, hefur óskað eftir því að lík hans verði ekki krufið.

Að sögn dánardómstjóra í Ohio, heimaríki Warmbier, verður lík hans rannsakað utan frá í von um að skera úr um dánarorsökina.

„Það er ekki óalgengt að krufningu sé neitað,“ sagði Justin Weber hjá skrifstofu dánardómstjóra. „Þetta er ákvörðun fjölskyldunnar.“

Warmbier lést á mánudaginn vegna alvarlegs heilaskaða eftir að hafa verið í 18 mánuði í haldi í Norður-Kóreru.

Hann var dæmdur til 15 ára þrælkunarvinnu í mars 2016 fyrir að hafa stolið áróðursveggspjaldi frá norðurkóresku hóteli þegar hann var þar í námsferð.

Samskipti ríkisstjórna Norður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa versnað enn frekar eftir dauðsfall Warmbier.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði lát hans vera „algjöra hneisu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert