Ást við fyrstu sýn í búðunum

Beatrice Huret.
Beatrice Huret. AFP

Réttarhöld hófust yfir franskri konu í dag sem er sökuð um að hafa veitt írönskum flóttamanni aðstoð við að komast yfir Ermarsund til Bretlands. 

Beatrice Huret á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi ef hún verður fundin sem um að hafa aðstoðað Mokhatar yfir sundið. Þau kynntust þegar hún vann sem sjálfboðaliði í búðum sem nefndust Jungle í frönsku hafnarborginni Calais.

Huret, sem er 44 ára gömul og fyrrverandi stuðningsmaður Front National - Þjóðfylkingarinnar, er ein nokkurra Frakka sem hafa verið ákærðir fyrir að aðstoða flóttafólk undanfarna mánuði. Enginn þeirra hefur verið dæmdur í fangelsi en nýverið var bóndi dæmdur til að greiða 3 þúsund evrur í sekt.

Þegar Huret mætti í dómshúsið í bænum Boulogne-sur-Mer, skammt frá Calais, sagðist vona að réttarhöldin myndu auka skilning fólks á því hvers vegna hún gerði það sem hún gerði. Hún sagðist bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum.

Hún segist vera tilbúin til að gera hvað sem er fyrir Mokhtar. Verst væri að ef hún yrði dæmd í fangelsi gæti hún ekki hitt hann en þau eru par. Auk hennar eru þrír aðrir ákærðir fyrir að aðstoða flóttafólk yfir Ermarsundið.

Allt breyttist hjá Huret í febrúar 2015 þegar hún tók ungan Súdana upp á puttanum og keyrði hann að flóttamannabúðunum í Calais þar sem þúsundir biðu upp á von og óvon um að komast til Bretlands.

„Það var áfall að sjá allt þetta fólk ráfandi um í drullunni,“ segir Huret en hún er ekkja lögreglumanns sem lést úr krabbameini árið 2010.

Hún fór að starfa sem sjálfboðaliði í búðunum og ári síðar kynntist hún Mokhtar sem var í hópi Írana sem saumuðu saman á sér munninn þegar búðirnar voru að hluta til jafnaðar við jörðu í mars 2016. „Þetta var ást við fyrstu sýn,“ segir Huret. Hún aðstoðaði Mokhtar við að eignast bát og koma honum niður á strönd. Þaðan sigldi hann ásamt tveimur öðrum til Bretlands 11. júlí 2016. Hann býr nú í Sheffield og hefur fengið hæli þar. 

Huret skrifaði bók um ástarævintýri þeirra, Calais Mon Amour, og berjast nú nokkrir kvikmyndaframleiðendur um réttinn á að gera mynd eftir bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert