Misþyrmdu Malik á flóttanum

Malik var fimmtán ára er hann strauk að heiman og …
Malik var fimmtán ára er hann strauk að heiman og lagði á flótta. Hann vildi sjá fyrir móður sinni. Malik er í hópi milljóna flóttabarna í Afríku. Ljósmynd/UNICEF

„Ég var barinn með prikum, með járnrörum og keðju af mótorhjóli. Á hverjum degi börðu þeir mig og kröfðust peninga,“ segir Malik, sextán ára, er hann rifjar upp meðferðina sem hann hlaut af hendi mannræningja. Malik er fjarrænn og talar rólega, rétt eins og hann sé að lýsa lífi einhvers annars. En þjáningin skín af andliti hans. Hann er nú kominn aftur til heimlandsins, Gambíu. Hann einbeitir sér að því að gleyma því sem fyrir augu hans hefur borið.

Hann er smávaxnari en flestir jafnaldrarnir en þrautseigja hans og styrkur er meiri en þeirra flestra. Hann reyndi að flýja til Evrópu og ætlaði að fara til Ítalíu frá Líbíu. Hann er í hópi rúmlega sjö milljóna barna sem eru á vergangi í Vestur- og Mið-Afríku. Fólkið flýr fátækt, ófrið og loftslagsbreytingar, stundum allt þetta og meira til. Í skýrslu Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna, UNICEF, sem kom út í dag, er rýnt í stöðu þess­ara barna. 

„Ég fór því ég vildi reyna að sjá fyrir móður minni,“ segir Malik. „Ég vildi senda henni peninga og vera góður sonur.“

Drengir eins og Malik verða oftar en ekki höfuð fjölskyldna sinna ef þeir ná að komast til Evrópu og fá vinnu.

Malik lagði af stað þegar hann var fimmtán ára. Hann steig upp í rútu og hafði aðeins óljósa hugmynd um hvert hann vildi fara, hvað hann ætlaði að gera. Hann strauk í skjóli nætur, án þess að láta fjölskyldu sína vita. Malik hafði smá pening meðferðis og sá sjóður varð fljótt á þrotum. Hann fór í gegnum Senegal, Malí, Búrkína Fasó og Níger. Er hann kom til Líbíu átti hann ekki krónu eftir. 

Staða hans var því mjög viðkvæm og hann endaði í höndum mannræningja. Hann þurfti að þola barsmíðar en fangarar hans ætluðu að krefjast lausnargjalds. En fjölskylda hans í Gambíu átti enga peninga. Hún gat ekkert annað gert en að hlusta á sársaukaöskur drengsins er mannræningjarnir hringdu og settu fram kröfur sínar. 

Kraftaverk að hann komst heim

Malik var í haldi mánuðum saman. Heilsu hans hrakaði ört. En annar flóttamaður frá Gambíu, sem deildi klefa með Malik, var enn verr á sig kominn. Hann var við dauðans dyr. Fjölskylda hans gat borgað lausnargjaldið en hann var of veikburða til að fara aftur til síns heima. Af góðmennsku sinni grátbað hann mannræningjana að sleppa hinum unga Malik í sinn stað. 

Þeir féllust á það og fyrir algjört kraftaverk tókst Malik að komast aftur til Gambíu. Fjölskyldan fagnaði honum vissulega ákaft en fordómar eru miklir í samfélaginu í garð þeirra sem reyna að flýja en mistekist. Hann skammaðist sín fyrir að hafa ekki tekist ætlunarverkið. 

Malik ætlar ekki að reyna flótta með þessum hætti aftur. Hann segist nú deila reynslu sinni með öðrum ungum drengjum sem vilja reyna að öðlast betra líf. „Ef ég get komið í veg fyrir að einn þeirra fari í þessa hættuför þá finnst mér ég hafa gert gagn.“

Í fótspor forfeðranna

Fólksflótti er eitt helsta hitamál okkar tíma. Aldrei fyrr hafa jafnmargir jarðarbúar lagt af stað frá heimahögunum og út í óvissuna í veikri von um að bæta lífskjör sín.

En flóttinn frá Mið-Austurlöndum og Afríku til Evrópu er aðeins lítill hluti af heildarmyndinni. Langflestir leggja ekki í slíka för heldur flýja til annarra svæða innan sinna heimalanda eða nágrannalandanna. 

Fólksflutningar eru ekkert nýir af nálinni í sögulegu samhengi. Sú þrá að leita öryggis fyrir sig og fjölskyldu sína, að vilja skapa sér og sínum lífvænleg skilyrði, hefur fylgt mannkyninu frá upphafi. Sú þrá er sammannleg öllum jarðarbúum, segja skýrsluhöfundar UNICEF. „Til að tryggja slíkar grunnþarfir hefur fólk flutt sig um set í leit að betri aðstæðum í fjarlægum löndum frá örófi alda. Forverður okkar fluttu til að lifa af og blómstra og við fylgjum í þeirra fótspor.“

Þeir benda á að flestir flóttamenn séu ekki að ætlast til þess að lifa á framfærslu annarra. Þeir vilja sjá fyrir sér sjálfir. „Þetta eru karlar, konur og börn sem eru að berjast fyrir því sem mannkynið hefur alltaf viljað: Öryggi og betra lífi.“

Skúr í Malí með áfangastöðum þeirra sem ætla sér að …
Skúr í Malí með áfangastöðum þeirra sem ætla sér að flýja til Evrópu. Mörg barnanna sem eru á flótta kunna ekki að lesa og eiga erfitt með að fóta sig á flóttanum. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert