Allra augu á Trump og Pútín

Rússneskar matríoska-dúkkur í rússneskri gjafavörubúð af þeim Trump og Pútín, …
Rússneskar matríoska-dúkkur í rússneskri gjafavörubúð af þeim Trump og Pútín, sem munu eiga sinn fyrsta fund í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti munu í dag eiga sinn fyrsta fund, en þjóðarleiðtogarnir eru báðir meðal þátttakenda á fundi G20-ríkja í Hamborg í Þýskalandi. Báðir hafa þeir sagst vilja bæta samskipti þjóðanna, sem hafa beðið hnekki vegna Sýrlandsstríðsins og ástandsins í Úkraínu, sem og af meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum síðasta haust.

Trump og Pútín munu funda síðdegis í dag og vekur fundur þeirra mikla athygli, en Trump gagnrýndi rússneska ráðamenn í gær er hann var í opinberri heimsókn í Póllandi. Hvatti hann Rússa þá til að hætta að auka á óstöðugleika í Úkraínu og öðrum ríkjum, sem og að hætta stuðningi sínum við ráðamenn óvinveittra þjóða á borð við Sýrland og Rússland. Þess í stað ættu þeir að „ganga í lið með samfélagi ábyrgra þjóða“.

Þá útilokaði Trump heldur ekki að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum. Stjórnvöld í Kreml höfnuðu hins vegar alfarið orðum Trump, enda segjast ráðamenn þar í landi ekki hafa nein afskipti af stríðinu í Úkraínu, þó að þeir viðurkenni að rússneskir „sjálfboðaliðar“ berjist með uppreisnarmönnum.

BBC segir gagnrýni Trump í garð Rússa í gær benda til þess að hann vilji átti sig á pólitískri hættu þess að láta bendla sig of náið við Pútín.

Allt að 100.000 taka þátt í mótmælum

Búist er við að fjöldi deilumála muni einnig koma upp í viðræðum annarra þjóðarleiðtoga á fundinum. Loftslagsmálin verða m.a. ofarlega á baugi, en Trump tilkynnti fyrir nokkru að hann ætli að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Þá er einnig búist við að alþjóðaviðskipti eigi eftir að vera þrætuepli í viðræðum þjóðarleiðtoganna við Trump.

Rúmlega 20.000 lögreglumenn eru á vakt í Hamborg á meðan fundurinn fer fram, en búist er við miklum fjöldamótmælum í borginni í dag. Áætla yfirvöld að allt að 100.000 manns kunni að taka þátt í mótmælum þessa helgi. Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í gærkvöldi og eru 76 lögreglumenn sárir eftir þau átök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert