Trump fær Obamacare ekki afnumin í bráð

Hópur fólks mótmælir nýja heilbrigðisfrumvarpinum fyrir utan þinghúsið. Ljóst er …
Hópur fólks mótmælir nýja heilbrigðisfrumvarpinum fyrir utan þinghúsið. Ljóst er nú að frumvarpið mun ekki komast í gegnum þingið að svo stöddu. AFP

Líkur á að ný heilbrigðislöggjöf Donald Trumps Bandaríkjaforseta fáist samþykkt af Bandaríkjaþingi fara nú sífellt þverrandi. Eitt af kosningaloforðum Trumps var að afnema gildandi heilbrigðislöggjöf, sem forveri hans í embætti Barack Obama kom á, en litlar líkur eru nú á að honum muni takast það í bráð.

Á mánudag lýstu tveir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins, þeir Mike Lee og Jerry Moran, því yfir að nýja löggjöfin gangi ekki nógu langt. Hafa þar með fjórir þingmenn flokksins lýst yfir andstöðu sinni við frumvarpið.

Skiptar skoðanir eru um heilbrigðisfrumvarpið meðal þingmanna repúblikana. Sumir þeirra telja það ekki ganga nógu langt í að afnema löggjöf Obama, á meðan að aðrir hafa áhyggjur af áhrifum nýja frumvarpsins á þá Bandaríkjamenn sem standa hvað verst að vígi.

„Því miður þá er nú ljóst að tilraun okkar til að afnema Obamacare og koma strax á nýrri löggjöf mun ekki takast,“ hefur BBC eftir Mitch McConnell leiðtoga Repúblikana í öldungadeild þingsins.

Samkvæmt nýja frumvarpinu þá áttu skattar á hina ríku að haldast, en tryggingafélög áttu öðlast heimild til að bjóða upp á umfangsminni tryggingar, auk þess sem verulega átti að draga úr heilbrigðisþjónustu fyrir hina efnaminni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert