Bræðrum vísað úr landi með hraði

AFP

Tveimur bræðrum frá Gaithersburg var vísað úr landi í Bandaríkjunum í gær og segir verjandi þeirra að aldrei áður hafi slíkt ferli tekið jafn skamman tíma og nú. Bræðurnir, sem eru frá El Salvador, komu með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna árið 2009.

Lizandro Claros Saravia, sem er 19 ára gamall, er afburða knattspyrnumaður og hafði tryggt sér íþróttastyrk við háskóla í Norður-Karólínu. Bróðir hans, Diego, er 22 ára er útskrifaður frá Quince Orchard High School og hefur hvorugur þeirra komist í kast við lögin frá því þeir komu fyrst til Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að þeir hafi báðir áunnið sér rétt til þess að dvelja í landinu þá fengu þeir synjun þegar þeir reyndu að endurnýja heimildina. Fjallað er um mál þeirra í fjölmörgum fjölmiðlum þessa dagana.

Lizandro Claros Saravia var vísað úr landi í gær.
Lizandro Claros Saravia var vísað úr landi í gær. Af Hudl

Samkvæmt BBC komu þeir á skrifstofu innflytjendamála (Immigration and Customs Enforcement (ICE)) á föstudaginn til þess að láta vita af því að þeir ætluðu að flytja á milli ríkja Bandaríkjanna. Í gær, fimm dögum síðar, var þeim vísað úr landi.

Talsmaður ICE, Matthew Bourke, segir í samtali við Washington Post að bræðurnir séu ekki á sakaskrá og þegar Barack Obama var forseti Bandaríkjanna hefði ekki verið forgangsmál að vísa bræðrunum úr landi. 

Aftur á móti hefur ríkisstjórn Donalds Trump gefið sagt að allir ólöglegir innflytjendur í landinu geti átt von á því að vera vísað úr landi. Sama dag og Bandaríkjaforseti samþykkir frumvarp til laga um að draga úr möguleikum fólks á að fá að setjast að með löglegum hætti í landinu voru bræðurnir sendir úr landi, segir í frétt WP. 

Kennari þeirra beggja segir að bræðurnir hafi ekki gert neitt af sér og þeir hafi báðir skarað framúr.  

Knattspyrnuþjálfari Lizandro segir að hann hafi átt að hefja æfingar hjá knattspyrnuliði Louisburg háskólans þar sem hann hafði gert tveggja ára samning. 

Brett Colton, sem var þjálfari Lizandro síðustu tvö árin segir í samtali við ABC sjónvarpsstöðina að hann sé eitt mesta efni sem hefur komið fram í bandarískum fótbolta og sé einn sá besti í Bandaríkjunum.

Síða Lizandro 

Bræðurnir voru settir í varðhald í Baltimore á föstudag eftir að hafa farið á skrifstofu ICE þar í borg til þess að tilkynna um flutninginn til Norður-Karólínu.

ICE-fulltrúarnir sögðu mér að þeir væru að vísa krökkunum úr landi þar sem Lizandro komst inn í háskóla og að greinilegt var að þeir ætluðu sér að vera áfram í Bandaríkjunum,“ segir Nick Katz, verjandi bræðranna og lögmaður hjá CASA de Maryland.

Bourke segist ekki vita nákvæmlega hvernig ferlið hafi verið en bræðurnir hafi fengið lokaviðvörun um að fara úr landi árið 2012. Það sé ástæðan fyrir því að þeim hafi verið vísað úr landi. Árið 2013 fengu bræðurnir aftur á móti heimild til þess að vera áfram í Bandaríkjunum en á seinni stigum var þeim synjað um heimild til búsetu.

Tvær frænkur og afar og ömmur drengjanna ætluðu að taka á móti þeim í El Salvador en fjölskylda þeirra, foreldrar og systkini, eru búsett í Bandaríkjunum.

„Þeir hafa sundrað fjölskyldu minni,“ segir  móðir þeirra Lizandro og Diego, Lucia Saravia. „Við vorum saman og við vorum hamingjusöm.“

„Kerfinu er ætlað að vísa glæpamönnum úr landi - ég er sáttur við það,“ segir bróðir þeirra, Jonathan, 29 ára smiður. „En bræður mínir brutu ekki af sér. Þeir hafi tekið framtíðina frá þeim.“

Þar sem þeim var vísað úr landi  verður mjög erfitt fyrir þá að fá heimild til þess að koma þangað að nýju. Katz telur að það taki að minnsta kosti tíu ár fyrir þá að fá slíka heimild.

Frétt BBC

Frétt Washington Post

Frétt ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert