Chicago höfðar mál gegn stjórn Trumps

Rahm Emanuel tilkynnir um lögsóknina á blaðamannafundi.
Rahm Emanuel tilkynnir um lögsóknina á blaðamannafundi. AFP

Borgaryfirvöld í Chicago hafa höfðað mál á hendur ríkisstjórn Donalds Trumps fyrir að neita að láta af hendi fé til svokallaðra griðaborga (e. sanctuary cities), sem hafnað hafa að taka þátt í hertum aðgerðum alríkisins gegn óskráðum innflytjendum.

Lögsóknin, sem er sú fyrsta vegna þessa, beinist að því skilyrði ríkisstjórnarinnar sem kveður á um að borgir skuli fanga þá sem grunaðir eru um að vera óskráðir innflytjendur, svo alríkisyfirvöld geti yfirheyrt viðkomandi.

Geri þær það ekki stöðvast fjárveitingar ríkisins til lögreglustöðva viðkomandi borgar.

Borgarstjóri Chicago, Rahm Emanuel, sagði í dag að þessi stefna ríkisstjórnarinnar ynni gegn ætluðum tilgangi.

„Með því að neyða okkur, eða lögregluyfirvöld, til að velja á milli gilda borgarinnar annars vegar og gilda lögreglunnar hins vegar... Ég held að þetta sé ekki raunverulegt val, og það grefur undan okkar raunverulegu öryggisstefnu,“ sagði Emanuel í samtali við CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert