Trans hermenn stefna Trump

Trump vill meina að transfólk í hernum valdi truflunum.
Trump vill meina að transfólk í hernum valdi truflunum. AFP

Fimm trans einstaklingar í bandaríska hernum hafa stefnt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og James Mattis varnarmálaráðherra, vegna ummæla sem Trump lét falla á Twitter nýlega um að til stæði að banna transfólki að gegna herþjónustu. Fleiri embættismenn eru einnig tilgreindir í stefnunni sem hefur verið lögð fyrir alríkisdómstól í Washington. BBC greinir frá.

Trump sagði herinn þurfa að einbeita sér að ótvíræðum og afgerandi sigri öllum stundum, og gæti því ekki látið gífurlegan lækniskostnað sliga sig, eða leyft þá truflun sem trans einstaklingar í hernum myndu valda.

Einstaklingarnir fimm, sem eru landgönguliðar, í flughernum og strandgæslunni, vilja koma í veg fyrir að bannið verði að veruleika.

Samkvæmt ákvörðun sem tekin var í stjórnartíð Barack Obama, forvera Trump, átti að hefja það ferli að taka transfólk inn í herinn í júlí á þessu ári. Núverandi varnarmálaráðherra frestaði hins vegar ferlinu um sex mánuði. Nú stendur til að banna transfólki alfarið að gegna herþjónustu.

Talið er að allt að 10.000 trans einstaklingar séu í bandaríska hernum og hafa þúsundir þeirra stigið fram og skilgreint sig á þann hátt fyrir yfirmönnum sínum og félögum frá því í október á síðasta ári. Þá var transfólki leyft að gegna herþjónustu, svo framarlega sem það gekk í herinn áður en það skilgreindi sig opinberlega sem slíkt.

Ein þeirra sem stefnir Trump segir það hafa verið mikinn létti fyrir sig að geta viðurkennt fyrir yfirmanni sínum og félögum að hún væri trans. „Reynsla mín hefur verið jákvæð og ég er stoltari en áður að fá að gegna herþjónustu. Ég er gift og á þrjú börn, og að gegna herþjónustu er það sem ég vil gera í lífinu. Nú er ég hins vegar með áhyggjur af afkomu minni og framtíð fjölskyldunnar..“

Þeir trans einstaklingar sem nú þegar hafa stigið fram í hernum eiga það á hættu að missa lífsviðurværi sitt, verði bann Trump að veruleika. Fjölmargir þessara einstaklinga hafa gegnt herþjónustu í yfir 20 ár og barist bæði í Afganistan og Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert