Diplómatar á Kúbu missa heyrn

Maður á göngu í Havana, höfuðborg Kúbu. Heyrnarleysi og höfuverkur …
Maður á göngu í Havana, höfuðborg Kúbu. Heyrnarleysi og höfuverkur eru meðal þeirra einkenna sem diplómatarnir hafa fundið fyrir á Kúbu. AFP

Kanadíska utanríkisráðuneytið er nú með til rannsóknar hvað olli því einn af sendiráðsstarfsmönnum kanadíska sendiráðsins á Kúbu fékk skyndilega höfuðverk og missti heyrn. Ekki eru nema nokkrir dagar frá því að bandarísk stjórnvöld greindu frá því að starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna á Kúbu hefðu fundið fyrir skrýtnum líkamlegum einkennum.

Segir BBC vitnisburði benda til þess að þeir hafi orðið fyrir árás einhvers konar hljóðbúnaðar sem hafi ollið heyrnarleysinu.

Yfirvöld á Kúbu, hafna alfarið ásökununum, en bandarísk stjórnvöld hafa engu að síður sent í hefndarskyni tvo kúbverska diplómata heim frá Bandaríkjunum.

„Kúba hefur aldrei, né mun það nokkurn tímann, leyfa að kúbverskt landsvæði sé notað fyrir nokkurs konar aðgerðir gegn diplómötum eða fjölskyldum þeirra,“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Kúbu.

Mögulega verk þriðja ríkis

Bandarísk yfirvöld hafa ekki gengið svo langt að segja kúbversk stjórnvöld bera ábyrð á árasinni, þó segir Heather Nauer, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, kúbverskum yfirvöldum bera skylda til að vernda bandaríska diplómata.

Samkvæmt upplýsingum frá kanadíska utanríkisráðuneytinu þá vinna þarlend stjórnvöld í samstarfi við embættismenn í Bandaríkjunum og Kúbu að því að komast að því hvað gerðist.

„Við vitum af óvenjulegum einkennum sem kanadískir og bandarískir diplómatar  og fjölskyldur þeirra á Havana hafa fundið fyrir,“ hefur BBC eftir talsmanni ráðuneytisins. Ekki sé hins vegar talinn ástæða til að ætla að kanadískum ferðamönnum eða öðrum gestum stafi hætta af.

AP fréttastofan hefur áður greint frá því að bandarísk rannsókn bendi til þess að heyrnarleysi bandarískra diplómata kunni að tengjast hljóðbúnaði sem sendi frá sér hátíðni hljóð sem geti valdið heyrnarleysi.

Sagði heimildamaður AP að rannsóknin hafi sýnt fram á að slíkur búnaður hafi verið notaður annað hvort inni á, eða fyrir utan heimili diplómatanna. Ekki sé þó þar með öruggt að kúbversk yfirvöld hafi staðið fyrir árásinni, því einnig sé verið að skoða hvort þriðja ríkið, t.a.m. Rússland eigi þar þátt að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert