Óttast að kröfur fyrnist vegna seinagangs í rannsókn

Kröfuhafar telja að 2-3 milljarðar króna hafi horfið til útlanda.
Kröfuhafar telja að 2-3 milljarðar króna hafi horfið til útlanda. mbl.is/samsett mynd

Kröfuhafar í þrotabú United Silicon hafa áhyggjur af því að fjármunir muni tapast í ljósi þess að hluti meintra brota í málinu sé þegar fyrndur vegna seinagangs í rannsókn málsins. 

Kröfuhafarnir hafa, í samtölum við mbl.is, lýst áhyggjum af því að fjármunir þeirra tapist þar sem hluti meintra brota í málinu gæti þegar verið fyrndur sökum seinagangs héraðssaksóknara í rannsókn málsins.

Hluti ætlaðra brota snýr að því að fjármunir þrotabúsins, að sögn kröfuhafa um 2-3 milljarðar króna, hafi horfið án útskýringar til útlanda. 

Reiða sig á lögreglu 

Er Magnúsi Garðarssyni, stofnanda og fyrrverandi stjórnanda United Silicon, meðal annars gefið að sök að hafa stofnað erlend gerviverktökufélög, gefið út falsaða og tilhæfulausa reikninga frá þeim félögum til að dylja brot sín og látið bókhaldsgögn hverfa í sama tilgangi. 

Kröfuhafar þrotabúsins segjast hafa þurft að reiða sig á rannsókn lögreglu á brotunum, þar sem brotin séu alþjóðleg. Þeir voni að fjármunirnir finnist og verði afhentir kröfuhöfum, en furði sig jafnframt á seinagangi lögreglu við rannsókn málsins.

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrning rofin með yfirheyrslu 

Rann­sókn héraðssak­sókn­ara á Magnúsi hófst í sept­em­ber árið 2017 eftir kæru stjórnar Sameinaðs sílikons hf. til héraðssaksóknara. Meint brot Magnúsar ná að mestu til áranna 2013-2015. Hluti meintra brota áttu sér stað fyrri hluta árs 2013 og eru því orðin rúmlega tíu ára gömul. 

Hætta er á fyrningu sakar ef meira en tíu ár eru liðin síðan brot voru framin. Þó er hægt að rjúfa fyrningu t.a.m. með því að yfirheyra sakborninga við rannsókn máls. Í framhaldinu er svo tekin ákvörðun um það hvort ákæra verði gefin út. 

Verulegar upphæðir

Geir Gests­son, skipta­stjóri Sam­einaðs sílikons hf., segir að sér sé ekki kunnugt um hver staðan á rannsókn héraðssaksóknara sé, en hann taki undir áhyggjur kröfuhafa þrotabúsins. Hann segist einnig hafa verulegar áhyggjur af því að fjármunir kröfuhafa þrotabúsins tapist ef rannsókn verði ekki hraðað: 

„Ég get staðfest við þig að sum þeirra ætluðu brota sem eru til rannsóknar eru orðin rúmlega 10 ára gömul og að upphæðin sé veruleg. Kröfuhafar treysta alfarið á að lögreglan finni fjármunina sem hurfu og því eru það ekki góð tíðindi ef rannsókn hefur dregist svona. Þetta eru miklir hagsmunir fyrir þrotabúið,“ segir Geir.

Geir Gestsson er skiptastjóri í máli United Silicon.
Geir Gestsson er skiptastjóri í máli United Silicon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætti að vera forgangsmál lögreglu 

Geir segir það sitt hlutverk sem skiptastjóra að reyna að hafa uppi á fjármunum fyrir kröfuhafa.

Það sé ekki hans hlutverk að rannsaka sakamál eða hafa skoðun á því hverjir verði ákærðir. Ef fjármunir finnist hins vegar með rannsókn lögreglu og er skilað til þrotabúsins, þá auki það endurheimtur kröfuhafa verulega. 

„Ef það er rétt að ekki sé búið að spyrja menn hvar fjármunir þrotabúsins eru, þegar í sumum tilfellum eru liðinn meira en tíu ár eru síðan fjármunir hurfu, þá hef ég satt að segja verulegar áhyggjur af því. Með hverjum deginum sem líður verður erfiðara að upplýsa um málið og finna peninga þrotabúsins. Málið er af þeirri stærðargráðu að það ætti að vera forgangsmál lögreglu að rannsaka það,“ segir Geir.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, vildi ekki tjá sig um málið efnislega þar sem það er á rannsóknarstigi. „Á þessu stigi máls á meðan málið er til rannsóknar þá munum við ekki tjá okkur um þennan þátt málsins,“ segir Ólafur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert