Bylgja hælisleitenda frá Bandaríkjunum

Hermenn eru uppteknir við að setja viðargólf, lýsingu og hita í tjöld í Quebec-héraði í Kanada í nágrenni við landamærin að Bandaríkjunum. Þar hafa verið settar upp flóttamannabúðir fyrir hælisleitendur frá Bandaríkjunum.

Börn hlaupa milli grænna tjaldanna á meðan foreldrar þeirra bíða eftir viðtölum við fulltrúa innflytjendayfirvalda. 

Allan daginn hafa rútur með fólki komið í búðirnar. Fólkið gengur yfir landamærin með töskur í farteskinu. Þar mætir lögreglan þeim og flytur það í flóttamannabúðirnar. 

Fólkið dvelur aðeins í þessum búðum í stuttan tíma áður en það er flutt til Montreal eða Ontario þar sem yfirvöld aðstoða það við að finna húsnæði á meðan niðurstaða fæst í umsókn þess um hæli.

Fjölmiðlum er ekki leyft að ræða við hælisleitendurna í búðunum. Flestir þeirra eru frá Haítí en þeim verður öllum vísað frá Bandaríkjunum fyrir lok þessa árs. Þá munu tímabundin dvalarleyfi fólks sem flúði Haíti vegna jarðskjálftanna árið 2010 renna út. Í maí höfðu um 400 Haítar komið frá Bandaríkjunum til Kanada og sótt um hæli. Nú eru þeir orðnir yfir 3.800 talsins.

Samkvæmt samkomulagi milli Bandaríkjanna og Kanada á að vísa hælisleitendum frá Bandaríkjunum frá við landaærin að Kanada. En þetta fólk er þegar komið yfir landamærin. Það hefur gengið yfir skóglendi til að komast þangað.

Landamærin milli Kanada og Bandaríkjanna eru þau lengstu í heimi. Þau liggja að miklum hluta um þéttan skóg og fjalllendi og á þeim eru engar girðingar. Gæsla við landamærin er tiltölulega lítil.

 Þeir sem fara þessa leið inn í  landið eru handteknir af lögreglunni en þeir fá engu að síður tækifæri til að sækja um hæli í Kanada. 

Herinn var sendur til að aðstoða við að koma upp flóttamannabúðum í byrjun ágúst. Fyrst voru þær einar en nú eru þær orðnar þrjár. Þá hefur starfsmönnum útlendingaeftirlits verið fjölgað.

Á sama tíma hafa stjórnvöld í Kanada reynt að upplýsa fólk um innflytjendalög þar í landi en miklar ranghugmundir um þau eru hjá hælisleitendum í Bandaríkjunum. Vefsíður hafa til dæmis verið settar upp þar sem leiðbeiningar eru gefnar um hvernig megi komast óséður til Kanada. Samgöngumálaráðherra Kanada sagði í gær að fólk sem sækti um hæli í landinu fengi ekki sjálfkrafa landvistarleyfi. Þeir sem sæki um hæli verði að skilja þær reglur sem eru í gildi. Þeir sem eru að flýja undan stríði og ofsóknum fá hæli en aðrir geta ekki átt von á því að fá stöðu flóttamanna í landinu.

Í fyrra fékk aðeins um helmingur þeirra Haíta sem sóttu um hæli vernd. Hinum var vísað frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert