Greina Pentagon frá framkvæmd bannsins

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Búist er við því að Hvíta húsið greini Pentagon, varn­ar­málaráðuneyti Bandaríkjanna, á næstu dögum frá því hvernig ákvörðun Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta um að banna trans­fólki að ganga í her­inn verði fram­kvæmd.

Samkvæmt minnisblaði má varnarmálaráðherrann ákveða hvort að það eigi að reka fólk úr hernum, byggt á getu þeirra til þess að þjóna þar. Þetta kom fram í máli bandarísks embættismanns í gær.

Minnisblaðið gefur Jim Mattis varnarmálaráðherra sex mánuði til að koma banninu í framkvæmd, samkvæmt frétt um málið í The Wall Street Journal.

Einnig leiðbeinir það varnarmálaráðuneytinu um hvernig á að neita að taka á móti nýju transfólki í herinn og að hætta að veita þeim sem eru þar nú þegar læknisaðstoð.

Gert er ráð fyrir að Mattis muni helst leggja til grundvallar getu viðkomandi hermanna til þess að taka þátt í verkefnum á vígvelli, heræfingum eða langvarandi dvöl á skipum þegar hann ákveður hvort hermennirnir eigi að vera áfram.

Trump til­kynnti á Twitter-síðu sinni í lok júlí að her­inn mætti ekki við þeirri „fjár­hags­legu byrði og trufl­un“ sem af trans­fólki hlytist. Því ætti trans­fólk ekk­ert er­indi í banda­ríska her­inn, sem verði að ein­beita sér að „af­ger­andi sigri“.

Mann­rétt­inda­sam­tök um all­an heim hafa gagn­rýnt Trump harðlega eft­ir til­kynn­ing­una og sagt hana stór­hættu­lega fyr­ir trans­fólk. 

Frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert