Fyrir hvað standa norsku flokkarnir?

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

Vika er þar til norskir kjósendur ganga til þingkosninga og velja 169 fulltrúa á Stórþingið. Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn hafa verið við völd undanfarin fjögur ár með stuðningi Frjálslynda flokksins og Kristilega þjóðarflokksins og benda síðustu skoðanakannanir til þess að sú stjórn muni mögulega sitja áfram. Hins vegar gæti allt eins farið svo að ríkisstjórnarskipti verði og að næsta ríkisstjórn verði mynduð til vinstri.

Hefðbundið er að ríkisstjórnir í Noregi séu myndaðar annað hvort til hægri eða vinstri. Fyrir kosningar vita norskir kjósendur því yfirleitt hvaða flokkar starfa líklega saman í ríkisstjórn fái þeir til þess fylgi. Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Umhverfisflokkurinn vinna þá saman annars vegar og hins vegar Hægriflokkurinn, Framfaraflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn hins vegar.

Hér fyrir neðan fer stutt umfjöllun um hvern þeirra átta stjórnmálaflokka sem fengu fulltrúa kjörna á norska Stórþingið í síðustu þingkosningunum sem fram fóru 2013:

Verkamannaflokkurinn (Arbeiderpartiet) hefur haft mest fylgi norskra stjórnmálaflokka frá árinu 1927. Stefna flokksins byggir á jafnaðarstefnunni og er hann hlynntur því að Noregur gangi í Evrópusambandið. Verkamannaflokkurinn var stofnaður árið 1887 og er systurflokkur Samfylkingarinnar. Leiðtogi hans er Jonas Gahr Støre, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Verkamannaflokkurinn hlaut 30,8% fylgi í þingkosningunum 2013 og 55 þingsæti.

Hægriflokkurinn (Høyre) hefur yfirleitt verið hinn turninn í norskum stjórnmálum á móti Verkamannaflokknum. Flokkurinn er fyrst og fremst hefðbundinn íhaldsflokkur. Hann er hlynntur inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Flokkurinn var stofnaður í ágúst 1884 og er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins. Leiðtogi hans er Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Hægriflokkurinn fékk 26,8% fylgi í kosningunum 2013 sem skilaði 48 þingsætum.

Framfaraflokkurinn (Fremskrittspartiet) var stofnaður árið 1973 er sögulega séð hvað þekktastur fyrir harða innflytjendastefnu. Flokkurinn þykir hægrisinnaðri en Hægriflokkurinn þegar kemur að efnahagsmálum og hallari undir frjálshyggju. Þá hafnar hann inngöngu í Evrópusambandið og vill endurskoða EES-samninginn. Leiðtogi Framfaraflokksins er Siv Jensen fjármálaráðherra. Flokkurinn hlaut 16,3% í kosningunum 2013 og 29 þingsæti.

Kristilegi þjóðarflokkurinn (Kristelig Folkeparti) var stofnaður árið 1933 og er íhaldssamur flokkur, einkum þegar kemur að siðferðislegum málum eins og fóstureyðingum og líknardrápi og leggur áherslu á kristileg gildi. Flokkurinn er andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins er Knut Arild Hareide, fyrrverandi umhverfisráðherra. Flokkurinn hlaut 5,6% fylgi í þingkosningunum 2013 og 10 þingmenn kjörna.

Miðflokkurinn (Senterpartiet) var upphaflega stofnaður árið 1920 sem málsvari bænda. Stefna flokksins byggist í dag einkum á áherslu á minni miðstýringu, andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið og endurskoðun á EES-samningnum. Flokkurinn er systurflokkur Framsóknarflokksins. Leiðtogi flokksins er Trygve Slagsvold Vedum fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Flokkurinn fékk 5,5% fylgi í þingkosningunum 2013 og 10 þingsæti.

Frjálslyndi flokkurinn (Venstre) er elsti flokkur Noregs, stofnaður í janúar árið 1884, og var iðulega stærsti flokkur landsins fyrstu áratugina eftir stofnun. Flokkurinn leggur einkum áherslu á frjálslyndi og persónufrelsi og er andvígur inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Leiðtogi Frjálslynda flokksins er Trine Skei Grande, þingmaður á Stórþinginu. Flokkurinn hlaut 5,2% fylgi í þingkosningunum 2013 sem skilaði honum 9 þingsætum.

Sósíalíski vinstriflokkurinn (Sosialistisk Venstreparti) var stofnaður árið 1975. Flokkurinn leggur einkum áherslu á öflugt velferðarkerfi og ríkisafskipti í efnahagsmálum. Flokkurinn er andvígur inngöngu Noregs í Evrópusambandið og er systurflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Leiðtogi Sósíalíska vinstriflokksins er Audun Lysbakken, fyrrverandi jafnréttisráðherra Noregs. Flokkurinn fékk 4,1% í kosningunum 2013 og 7 þingmenn.

Umhverfisflokkurinn (Miljøpartiet De Grønne) var stofnaður árið 1988. Flokkurinn leggur fyrst og fremst áherslu á öfluga umhverfisvernd og þrátt fyrir að vera skilgreindur til vinstri hefur hann ekki viljað vera tengdur við aðra hvora fylkinguna í norskum stjórnmálum. Talsmenn Umhverfisflokksins eru þau Rasmus Hansson og Une Aina Bastholm. Flokkurinn hlaut 2,8% fylgi í þingkosningunum 2013 sem skilaði honum einu þingsæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert