Fjögurra ára lést úr malaríu á Ítalíu

Malaría berst í fólk með biti moskító-flugnan.
Malaría berst í fólk með biti moskító-flugnan. AFP

Grunur leikur á að fjögurra ára stúlka, sem lést af völdum malaríu, hafi smitast af sjúkdómnum í norðurhluta Ítalíu. Læknar eru furðu lostnir vegna málsins. 

„Ég hef aldrei séð tilfelli eins og þetta. Þetta er ráðgáta. Það hefði ekki átt að vera mögulegt að hún fengi malaríu,“ segir Claudio Paternoster, yfirmaður smitsjúkdóma við Santa Chaiara-sjúkrahúsið í Trento.

Stúlkan hét Sofi Zago og hafði ekki farið til landa þar sem malaría er útbreidd. Hún hafði hins vegar eytt sumarfríinu ásamt fjölskyldu sinni við sjóinn í Veneto á Norður-Ítalíu.

Hún var lögð inn á barnadeild Santa Chiara-sjúkrahússins en þar lágu fyrir tvö börn sem höfðu smitast af malaríu í Burkina Faso í Afríku.

„En aðeins sumar tegundir moskító-fluga geta borið sjúkdóminn milli manna og þær eru ekki til á Ítalíu,“ segir Paternoster. Aðeins fá tilfelli malaríu koma upp á Ítalíu á hverju ári. Þau er nefnd „ferðatösku-tilfellin“ því smitið berst með moskító-flugum sem fluttar eru óvart frá Afríku. 

Zago var greind með malaríu á laugardag og flutt á gjörgæsludeild. Heilsu hennar hrakaði hratt á sunnudag. 

„Sumarið var mjög heitt og vegna loftslagsbreytinga getum við ekki útilokað alögum sumra tegunda moskító-flugna eða að nýjar hafi sest hér að sem gætu borið út sjúkdóminn,“ segir  Paternoster.

Malaría var útbreidd á Ítalíu á 19. öld, sérstaklega í miðhluta landsins og á eyjum í suðri. En eftir að mikið land var brotið til ræktunar og lyfjanotkun jókst var því lýst yfir árið 1962 að Ítalía væri laus við sjúkdóminn.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að árið 2015 hafi 212 milljónir manna smitast af malaríu og 429 þúsund látist af hennar völdum. 

Um 90% dauðsfallanna eru meðal Afríkubúa. Börn undir fimm ára aldri eru í mestri hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert