„Hættulegt fyrir fólk að vera hér“

Vatn seldist upp í Costco í Miami þegar fólk tók …
Vatn seldist upp í Costco í Miami þegar fólk tók að búa sig undir komu Irmu. AFP

Jón Eggert Guðmundsson, sem búsettur er í Miami í Flórída, var á fullu við að undirbúa heimili sitt fyrir komu fellibyljarins Irmu þegar mbl.is ræddi við hann á tíunda tímanum í morgun. Hann var þá búinn að vera á fótum síðan fjögur í morgun að staðartíma og gerði ráð fyrir að eyða bróðurpartinum af deginum í að byrgja glugga, fjarlægja alla lausamuni og koma verðmætum í skjól.

„Eins og spáin er núna, þá mun fellibylurinn fara beina leið hingað yfir eftir viðkomu á Kúbu. Irma er fimmta stigs fellibylur núna, en það er talið að hún verði búin að minnka niður í fjórða stigs fellibyl áður en hún skellur á hér,“ segir Jón Eggert. „Þannig að við fáum hana mjög stóra og það er því hættulegt fyrir fólk að vera hér.“

Jón Eggert Guðmundsson hefur verið búsettur í Miami sl. átta …
Jón Eggert Guðmundsson hefur verið búsettur í Miami sl. átta ár og sloppið við fellibyli til þessa. mbl.is/Brynjar Gauti

Jón Eggert ætlar því að aka yfir til Orlando á morgun og gerir ráð fyrir að vera þar fram yfir helgi. Hann segir útlit fyrir að fellibylurinn komi beint á Flórídaskaga, „Þannig að ég mun ekki sleppa við hann í Orlando, en hann mun vera miklu minni þegar hann kemur þangað.“

Hillur tómar og skólar loka á morgun

Búast má við mikilli ölduhæð við Miami með komu Irmu og að vindhraðinn verði verulegur. „Núna er búist við að vindhraðinn verði 180-220 km/klst.,“ segir hann. „Þannig að það er bara hættulegt að vera hérna og þess vegna erum við núna að taka allt í burtu sem er laust, negla fyrir glugga og verðum í því í dag.“

Það sama á við um marga aðra íbúa Miami. „Það er allt tómt núna,“ útskýrir Jón Eggert. „Hillur í matvöruverslunum og meira að segja kaffihillurnar í Starbucks eru tómar.“  Skólar loki allir á morgun og fjöldi annarra sambærilegra stofnanna. Önnur fyrirtæki loki svo sum hver jafnvel í dag. „Því það eru allir í undirbúningi og margir búnir að vera að í nótt eins og ég.“

Verið er að byrgja glugga þessarar verslunar í Flórída fyrir …
Verið er að byrgja glugga þessarar verslunar í Flórída fyrir komu Irmu. AFP

Jón Eggert segist vita til þess að fjöldi Miamibúa ætli að yfirgefa borgina og halda í norðurátt, jafnvel út úr ríkinu. Aðrir ætli þó að vera um kyrrt og segist hann þekkja marga sem kjósi að fara hvergi. Sjálfur gerir Jón Eggert ráð fyrir að taka með sér helstu verðmæti er hann heldur til Orlando.

Óttast ekki flóð eins og í Texas

Hann segir fólk ekki enn byrjað að yfirgefa borgina, en býst við að umferðarstraumurinn byrji á morgun, en gert er ráð fyrir að Irma gangi inn á land á Miami á sunnudagseftirmiðdag.

Líkt og aðrir Flórídabúar fylgist hann vel með, enda vel þekkt að fellibylir breyti för sinni. „Ég held að spurningin sé ekki lengur hvort Irma komi inn á Miami, heldur hvað gerist næst, hvort að hún haldi þá út á sjó aftur eða fari lengra inn í land.“

Jón Eggert segir Miamibúa ekki óttast flóð eins og þau sem fylgdu fellibylnum Harvey í Texas í síðasta mánuði. „Það er munur á jarðvegi hér og þar. Miami er síkjasvæði og við erum vön miklum rigningum sem Texas er ekki,“ útskýrir hann og kveðst gera ráð fyrir að holræsakerfið geti tekið við rigningunni sem fylgi.

Hann hefur búið í Miami í átta ár og segist til þessa hafa verið svo heppinn að hafa ekki enn upplifað fellibyl, þó að vissulega hafi hann áður undirbúið heimili sitt fyrir komu þeirra. „Núna stefnir hins vegar allt í að hann fari bara beinustu leið hingað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert