Talið að 600 þúsund börn flýi átökin

AFP

Talið er að allt að 600 þúsund rohingja-börn komi til með að flýja átökin í Rak­hine-ríki í vest­ur­hluta Mjanmar, til Bangladess, áður en árið er úti, samkvæmt upplýsingum frá hjálparsamtökum á svæðinu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Mörg barnanna sem koma til Bangladess eru ein á ferð og eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er veruleg hætta á að þau verði misnotuð eða fórnarlömb mansals. „Sum barnanna hafa orðið vitni að ofbeldi og morðum. Sum hafa orðið fyrir skotárás og önnur hafa séð heimili sín brenna. Þá hafa sum þeirra horft upp á foreldra sína drepna,“ segir starfsmaður hjálparsamtaka á svæðinu. Verið er að reyna að koma upp sérstökum flóttamannabúðum með auknu öryggi fyrir þessi viðkvæmu börn. Þá hafa yfirvöld í Bangladess gefið út að þau ætli sér að koma á fót sérstökum úrræðum fyrir munaðarlaus börn rohingja-múslima.

Ut­an­rík­is­ráðherra Bangla­dess seg­ir þjóðarmorð vera fram­in á rohingja-fólki í Mjan­mar, en yfir 400 þúsund rohingj­ar hafa lagt á flótta yfir til Bangla­dess und­an of­sókn­um stjórn­ar­hers Mjan­mar. Búist er við að yfir milljón manns komi til með að flýja á þessu ári og talið er að yfir helmingur flóttafólksins sé börn. Sameinuðu þjóðirnar telja einnig að um þjóðarmorð geti verið að ræða.

AFP

Stjórn­ar­her­inn neitar að stunda of­sókn­ir í garð rohingja og seg­ist ein­göngu vera að upp­ræta hryðju­verka­menn úr röðum hers rohingja. Sam­tök þeirra nefn­ast The Arak­an Rohingya Sal­vati­on Army (Arsa) og óskuðu þau eft­ir vopna­hléi nýverið og eftir því að stjórnarherinn legði niður vopn sín.

Átök á milli þess­ara hópa hafa auk­ist mikið und­an­farið. Upp úr sauð 25. ág­úst síðastliðinn þegar liðsmenn Arsa réðust á lög­reglu Mjan­mar, eft­ir það hef­ur verið kveikt í fjölda þorpa rohingja-fólks.

AFP

Yfirvöld í Bangladess og hjálparsamtök á svæðinu reyna hvað þau geta að aðstoða flóttafólkið sem hefst við í flóttamannabúðum. Ekki er nægan mat að hafa fyrir fólkið og óttast hjálparsamtök að meiri háttar neyðarástand geti skapast.

Rohingj­ar eru minni­hluta­hóp­ur múslima sem búa í Rak­hine-ríki í vest­ur­hluta Mjanmar. Það er eitt fá­tæk­asta svæði Mjanmar og á landa­mæri að Bangla­dess. Þar hef­ur ólga milli múslima og búdd­ista verið viðvar­andi árum sam­an og þar eru Rohingj­ar neydd­ir til að haf­ast við. Þeir hafa ekki ferðaf­relsi og borg­ara­leg rétt­indi þeirra eru að öðru leyti einnig skert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert