Fundu leifar af taugagasinu í fatnaðinum

Konurnar tvær sem hafa verið handteknar og ákærðar fyrir morðið …
Konurnar tvær sem hafa verið handteknar og ákærðar fyrir morðið á Kim Jong-nam. AFP

Leifar af taugagasinu sem notað var til að myrða Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hafa fundist á fatnaði tveggja kvenna sem sakaðar eru um að hafa myrt hann. AFP-fréttastofan segir réttarhöldin yfir konunum hafa í dag verið flutt yfir í rannsóknarstofuna þar sem klæðnaður kvennanna var rannsakaður.

Taugagasið er að sögn AFP fyrstu beinu sannanirnar sem tengja konurnar morðinu á Kim, en hann var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur á meðan hann beið eftir flugi. Konurnar tvær, hin indónesíska Siti Aisyah og hin víetnamska Doan Thi Huon, sem báðar eru á þrítugsaldri, eru ákærðar fyrir að hafa í febrúar á þessu ári makað efninu í andlit hans.

Þær voru handteknar nokkrum dögum síðar og eiga yfir höfði sér dauðarefsingu ef þær verða fundnar sekar. Báðar segjast þær saklausar og hafa lögfræðingar þeirra fullyrt að þær hafi verið blekktar til verksins. Þær hafi talið sig vera að taka þátt í hrekk fyrir raunveruleikaþátt í sjónvarpi. Segja lögfræðingarnir hina raunverulegu morðingja vera útsendara Norður-Kóreu.

Morðið á Kim Jong-nam hefur vakið miklar deilur milli ráðamanna í Malasíu og Norður-Kóreu, sem grunur leikur á að hafi fyrirskipað morðið. Norðurkóresk stjórnvöld hafna hins vegar alfarið slíkum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert