Vill breyta samkomulaginu

Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti stjórnvöldum í Íran í dag sem öfgafullum og sakaði þau um að uppfylla ekki skilyrði kjarnorkusamkomulagsins við landið sem gert var árið 2015 og fól í sér að Íranir stöðvuðu kjarnorkuáætlun sína gegn því að hluti viðskiptaþvingana gegn landinu væri aflétt. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Fram kemur í frétttinni að Trump hafi í ræðu sem hann flutti í Hvíta húsinu neitað að halda áfram að staðfesta samkomulagið og lýst því yfir að hann ætlaði að vísa því til bandaríska þingsins. Þá ætlaði hann að ráðgast við bandamenn Bandaríkjanna hvernig hægt væri að breyta því. Sagði hann samkomulagið fara alltof mjúkum höndum um Írani.

Trump sakaði Íran ennfremur um að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum og sagðist ætla að koma alfarið í veg fyrir að írönsk stjórnvöld kæmu sér upp kjarnavopnum. Samkvæmt fréttinni hafa alþjóðlegir eftirlitsaðilar staðfest að Íranir hafi að fullu farið eftir samkomulaginu frá 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert