Priebus yfirheyrður vegna Rússlands

Donald Trump og Reince Priebus þegar allt lék í lyndi.
Donald Trump og Reince Priebus þegar allt lék í lyndi. AFP

Fyrrverandi skrifstofustjóri Hvíta hússins, Reince Priebus, var yfirheyrður í gær af rannsóknarteymi sem hefur til skoðunar möguleg afskipti rússneskra stjórnvalda af kosningabaráttunni í aðdraganda forsetakosninganna á síðasta ári.

Fram kemur í frétt AFP að Priebus hafi sjálfur boðist til þess að svara spurningum teymisins, sem stýrt er af Robert Mueller fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, að sögn lögmanna hans. Hann hafi verið meira en tilbúinn til þess.

Ennfremur kemur fram að Priebus hafi undirbúið sig fyrir yfirheyrsluna undanfarnar vikur. Rannsóknarteymið hefur meðal annars til skoðunar atburðarásina sem leiddi til þess að James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, var vikið úr embætti.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vék Comey úr embætti en fullyrt hefur verið að tilgangurinn hafi verið að koma í veg fyrir rannsókn alríkislögreglunnar á mögulegum tengslum kosningaherferðar forsetans við ráðamenn í Rússlandi.

Priebus sat á sínum tíma fundi þar sem rætt var um að víkja Comey úr embætti. Hann var einnig einn af lykilmönnunum í kosningaherferð Trumps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert