Vill loka leiðum hælisleitenda

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að íhaldsmaðurinn Sebastian Kurz, formaður Flokks fólksins, verði næsti kanslari Austurríkis. Þingkosningar fóru fram í landinu í gær en strax í gærkvöldi hafði Kurz lýst yfir sigri. Útgönguspár bentu þá til þess að flokkur hans, ÖVP, fengi 31,7% atkvæða, jafnaðarmenn fengju 27% og Frelsisflokkurin (FPÖ) 25,9%.

Kurz, sem yrði yngsti þjóðarleiðtogi heims, er talinn ætla að mynda ríkisstjórn til hægri, með Frelsisflokknum. Flokkarnir hafa talað á svipuðum nótum þegar kemur að innflytjendamálum en málefni innflytjenda voru á meðal helstu stefnumála Flokks fólksins í kosningabaráttunni.

Kurz hefur lofað kjósendum sínum að vinna að því að loka leiðum hælisleitenda til Evrópu, loka fyrir greiðslur til flóttafólks af hálfu ríkisins og koma í veg fyrir að þeir fái greiðslur úr almannatryggingakerfinu fyrstu fimm árin sem þeir búa í Austurríki.

„Okkur tókst hið ómögulega. Ég færi ykkur mínar bestu þakkir fyrir staðfestu ykkar og þennan sögulega árangur,“ sagði Kurz þegar hann ávarpaði stuðnigsmenn sína eftir að kjörstöðum lokaði. Hann vildi þó á þeirri stundu ekkert gefa út um hverjum hann vildi vinna með, ljúka yrði talningu atkvæða fyrst. „Gefum þessu tvo daga. Þá sjáum við hvernig þetta lítur raunverulega út,“ sagði hann í beinni útsendingu, spurður um áform sín í þeim efnum. Hann útilokaði ekki að mynduð yrði minnihlutastjórn.

Kurz er 31 árs gamall og yrði yngsti þjóðarleiðtogi í heimi. Hann hefur gegnt stöðu utanríkisráðherra frá árinu 2013, eða frá því hann var 27 ára. Hann tók við forystuhlutverki í flokknum í mars.

Kruz veifar til stuðningsmanna sinna í gærkvöldi.
Kruz veifar til stuðningsmanna sinna í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert