Bandarísk hergögn veiti Japönum öryggi

Trump og Abe á blaðamannafundinum í dag.
Trump og Abe á blaðamannafundinum í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Japan geta skotið eldflaugar Norður-Kóreu „niður af himnum“ með hergögnum keyptum frá Bandaríkjunum. Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, segir stjórnvöld ríkisins geta stöðvað för eldflauga „ef þörf þykir“.

Þetta kom fram á blaðamannafundi leiðtoganna í Japan fyrr í dag, en Trump er þar staddur í sinni fyrstu opinberu heimsókn til landsins.

Her Norður-Kóreu hefur tvisvar á undanförnum mánuðum skotið langdrægum eldflaugum yfir japanskt yfirráðasvæði.

Trump sagði á blaðamannafundinum að Abe hygðist kaupa umfangsmikið magn hergagna af Bandaríkjunum. Bætti hann við að Abe gæti skotið eldflaugar Norður-Kóreu „niður af himnum“ eftir að kaupin væru gengin í gegn. Umrædd kaup myndu þá útvega Bandaríkjamönnum atvinnu um leið og þau veittu Japönum öryggi.

Abe sagði Japan þurfa að efla gæði og umfang mögulegra varnarviðbragða sinna, með tilliti til „mjög erfiðrar“ stöðu sem stjórnvöld Norður-Kóreu hefðu skapað. Tók hann fram að eldflaugavarnir ríkisins væru reistar á löglegri samvinnu Japans og Bandaríkjanna.

Ekki er ljóst hvort skrifað hafi verið undir einhvers konar hernaðarsamning í þessari ferð Trumps, en ríkin tvö eru nánir bandamenn í hernaði og halda Bandaríkin úti nokkrum herstöðvum í landinu.

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert