Hægt að réttlæta beitingu kjarnavopna?

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Hótanir Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 19. september um gjöreyðingu Norður-Kóreu kæmi til vopnaðra átaka gæti falið í sér lagalega réttlætingu fyrir ráðamenn í Norður-Kóreu til þess að beita kjarnavopnum.

Þetta kemur fram í grein eftir Davíð Örn Sveinbjörnsson, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómslögmaður hjá ADVEL lögmönnum, í Úlfljóti, tímariti laganema, sem kom út í dag. Vísar hann meðal annars til ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins frá 1996, þar sem dómstóllinn taldi sig ekki geta „útilokað þann möguleika að beiting eða ógn um beitingu kjarnavopna kynni að vera réttlætanleg í sérstökum aðstæðum þegar tilvist ríkisins er í húfi.“

Davíð vísar einnig til svonefndra kjarnorkutilraunamála fyrir Alþjóðadómstólnum árið 1974 þar sem deilt var um kjarnorkutilraunir Frakka á Kyrrahafi. Einhliða yfirlýsing ráðamanna í Frakklandi um að hætta tilraununum var talin skuldbindandi að mati dómsins. Bendir Davíð á að sem forseti Bandaríkjanna komi hann „fram fyrir hönd þeirra á alþjóðavettvangi með sambærilegum hætti og forseti Frakklands í framangreindum málum og hefur þannig möguleika á að skuldbinda ríki sitt að þjóðarétti með einhliða yfirlýsingu.“

„Ofsafengin viðbrögð af hálfu Bandaríkjanna“

Davíð Örn Sveinbjörnsson.
Davíð Örn Sveinbjörnsson.

Ræða Trumps hafi verið flutt á allsherjarþingi SÞ og orðunum þannig beint til alþjóðasamfélagsins í heild. „Efni yfirlýsingarinnar var skýrt, gjöreyðing Norður-Kóreu var hótað kæmi til átaka. Sú hótun er einkar trúverðug í ljósi framkvæmanleika hennar, en Bandaríkin búa yfir einu stærsta kjarnavopnasafni heimsins ásamt Rússlandi. Þó ummælin eigi sér stað í samhengi ögrandi aðgerða Norður-Kóreu felst í ummælunum hótun um svo ofsafengin viðbrögð af hálfu Bandaríkjanna að skoða verði þau sjálfstætt, enda komin framúr eðlilegri áréttingu um sjálfsvarnarrétt ríkja.“

Með hliðsjón af þeim viðmiðunum sem Alþjóðadómstóllinn hafi lagt til grundvallar í fyrrgreindum málum kemst Davíð að þeirri niðurstöðu að ekki sé annað hægt en að álykta sem svo að ummæli forseta Bandaríkjanna verði að taka alvarlega og að þau kunni að hafa lagaleg áhrif á hugsanlegan rétt Norður-Kóreu til sjálfsvarnar varðar.

Má óttast um tilvist ríkisins komi til átaka

„Bandaríkin hafa með skýrum og opinberum hætti frammi fyrir alþjóðasamfélaginu hótað gjöreyðingu Norður-Kóreu. Í sjálfu sér kann hér að vera um ólögmæta hótun að ræða sem brjóti gegn grunnreglum þjóðaréttar um bann við beitingu eða hótun um beitingu vopnavalds. Með skýrari hætti felast hin lagalegu áhrif í því að Norður-Kórea má óttast um tilvist ríkisins komi til vopnaðra átaka.

Þannig kunni ótti Norður-Kóreu að opna á lögmæta beitingu ríkisins á kjarnavopnum gegn Bandaríkjunum að öðrum skilyrðum uppfylltum í ljósi álits Alþjóðadómstólsins frá 1996. „Afleiðingarnar eru alvarlegar, lögmæt notkun kjarnavopna er ekki útilokuð, þó vissulega sé þær enn fjarlægar í ljósi eðlis og áhrifa kjarnavopna,“ segir Davíð og lýkur greininni á eftirfarandi orðum.

„Vonandi reynir ekki á að Norður-Kórea beiti eða reyni að réttlæta beitingu kjarnavopna, mikilvægara er þó að lærdómur sé dregin af ummælunum og ákjósanlegt að Bandaríkin dragi í land með fullyrðingar sem þessar. Ummælin eru umfram allt tilefni til áminningar um mikilvægi þess að ráðamenn séu meðvitaðir um ábyrgð sína og þau áhrif sem orð þeirra geta haft á alþjóðlegum vettvangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert